Skip to main content

Pistlar

19. júní 2018
Dómasafn vestan af fjörðum

AM 193 4to er skrifað á pappír um 1700 af um það bil tíu skrifurum sem flestir hafa starfað á Vestfjörðum. Handritið kom sennilega þaðan til Árna Magnússonar ásamt öðrum handritum sömu gerðar. Þetta handrit er 146 blöð, 21 kver, 21,3 sm á hæð, 17 sm á breidd, um 3 sm á þykkt. Kverin eru saumuð saman innan í ljósa skinnkápu sem brotin er til hálfs á framhlið bókarinnar og er henni lokað með þrígreindum skinnþvengjum sem festir eru við kápuna en út frá þeim liggur einn þvengur með tréhnapp á endanum.

19. júní 2018
Melsteðs Edda SÁM 66

Konungsbók Eddukvæða frá um 1270 er elsta safn eddukvæða og frægust allra íslenskra bóka við hlið Eddu Snorra Sturlusonar (1178/9–1241). Kvæðin fjalla um heiðin goð og hetjur en þekking á kvæðunum liggur til grundvallar goða- og skáldskaparfræðinni í Snorra Eddu. Þessar tvær merkustu heimildir um forna norræna goðafræði og samgermanskar hetjusögur um Sigurð Fáfnisbana og Niflunga sameinast í handritinu SÁM 66 sem Jakob Sigurðsson (um 1727-1779) skrifaði á árunum 1765 og 1766. Nafn skrifarans er fólgið í rammvillingsletri sem Jónas Kristjánsson réð.

19. júní 2018
Reykjarfjarðarbók Sturlungu

Dálkr var bróðir Þorgils Hafliðasonar. Hann var faðir Bersa, föður Dálks, föður Halldórs prests í Saurbæ, föður Þorsteins, er átti Ingigerði Filippuss dóttur, Sæmundar sonar. Þeira dóttir var Guðrún, er Benedikt átti fyrr, en síðar herra Kolbeinn Auðkýlingr. Hallbera abbadís var önnur dóttir Þorsteins bónda ok Ingigerðar.

19. júní 2018
Postulinn Páll á íslensku bókfelli

AM 84 8vo er eitt þeirra handrita sem sýnd voru fyrr í vetur í Schirn Kunsthalle í Frankfurt í tengslum við heiðursþátttöku Íslands á bókamessunni þar í borg. Þetta er skinnbók í átta blaða broti, 13 x 9,5 sm að stærð, talin skrifuð um 1550. Í bókinni eru 55 blöð sem raðað er í 7 kver sem saumuð eru með skinnþvengjum inn í þykka skinnkápu.  Leturflötur hverrar blaðsíðu er 10 x 6,7 sm og línufjöldi á síðu 20.

19. júní 2018
Jónsbókarhandrit frá 14. öld

Flestar varðveittar skinnbækur frá miðöldum geyma lög, fyrst og fremst Jónsbók frá 1281 og kristinrétt Árna biskups Þorlákssonar frá 1275, auk réttarbóta konungs og kirkjuskipana. Til eru hátt á annað hundrað lögbóka og lögbókarbrota frá miðöldum, nærri fjórðungur allra íslenskra handrita og handritsbrota á skinni sem til eru. Þegar Árni Magnússon var rétt rúmlega tvítugur eignaðist hann þrjár veglegar lögbækur frá 14. öld hjá vinum og vandmönnum í Dalasýslu. Þær urðu kveikjan að handritasöfnun hans.