Skip to main content

Söfn Orðabókar Háskólans

Talmálssafn Orðabókar Háskólans
Talmálssafnið geymir umsagnir heimildarmanna um orð og orðafar í mæltu máli, ekki síst orðalag sem tengist gömlum starfsháttum og þjóðfélagsaðstæðum. Einnig eru í safninu talsverðar heimildir um staðbundinn orðaforða og merkingu. Um margt af þessu efni eru engar heimildir í öðrum söfnum stofnunarinnar.

Safnið er að meginhluta sprottið af þættinum Íslenskt mál í Ríkisútvarpinu sem starfsfólk Orðabókarinnar annaðist um áratuga skeið. Þar var fyrirspurnum komið á framfæri og í kjölfarið höfðu heimildarmenn víða um land samband við umsjónarmenn og veittu þeim margháttaðar upplýsingar um orð, merkingu þeirra og notkun í sínu máli og annarra.
Í tengslum við talmálssafnið er varðveitt talsvert bréfasafn frá heimildarmönnum og handrit umsjónarmanna að þáttunum Íslenskt mál.

Áætlað er að í talmálssafninu séu rúmlega 300 þúsund umsagnir. Lengst af voru umsagnir heimildarmanna skráðar á seðla en síðar var tekið að tölvuskrá þær jafnharðan. Einnig hefur verið gerð yfirlitsskrá yfir orðaforðann í safninu. Þetta efni er þó ekki aðgengilegt í gagnagrunni svo að notendur þurfa að styðjast við seðlasafnið í Eddu.