Skip to main content

Pistlar

Postulinn Páll á íslensku bókfelli

AM 84 8vo er eitt þeirra handrita sem sýnd voru fyrr í vetur í Schirn Kunsthalle í Frankfurt í tengslum við heiðursþátttöku Íslands á bókamessunni þar í borg. Þetta er skinnbók í átta blaða broti, 13 x 9,5 sm að stærð, talin skrifuð um 1550. Í bókinni eru 55 blöð sem raðað er í 7 kver sem saumuð eru með skinnþvengjum inn í þykka skinnkápu.  Leturflötur hverrar blaðsíðu er 10 x 6,7 sm og línufjöldi á síðu 20. Upphafsstafir kafla, skreyttir og dregnir með lit, og rauðar kaflafyrirsagnir og rauð skrautstrikun í texta eru aðeins á fyrstu 14 blöðum handritsins. Á öllum blöðum þaðan og til loka eru óútfylltar eyður fyrir upphafsstöfum og kaflafyrirsögnum. Skrifari handritsins er óþekktur.

 

Ljósmyndir: Jóhanna Ólafsdóttir.

Handritasafnarinn Árni Magnússon (1663–1730) fékk handritið hjá íslenskum námsmanni í Kaupmannahöfn, Magnúsi Jónssyni (1679–1702), að líkindum árið 1698, en Magnús hafði fengið það frá prestinum Árna Ólafssyni (1672–1709), sem þá var búsettur á Kirkjubæ í Hróarstungu á austurhluta Íslands og hafði handritið þá áður verið í eigu bænda á bænum Fögruhlíð í Jökulsárhlíð þar í sókninni, feðganna Odds Gíslasonar og Gísla Þorkelssonar. Ferill handritsins frá ritun þess og fram til þess tíma er óþekktur.

Helgisögur voru ómissandi í boðun og helgihaldi kaþólsku kirkjunnar á miðöldum. Til Íslands barst þessi sagnasjóður kirkjunnar eftir kristnitökuna árið 1000. Á Íslandi var helgisögunum snúið eða þær kannski fremur endursagðar á íslensku af íslenskum prestum eftir latneskum heimildum. Á Íslandi urðu einnig til á miðöldum nokkrar sögur af helgum mönnum, íslenskum og norrænum, sem oft voru frumsamdar á latínu en jafnharðan snúið á íslensku en yfirleitt er hinn latneski texti þeirra glataður. Alls fengu á annað hundrað helgra manna og kvenna sögur sínar skrásettar á íslenska tungu og oft í fleiri en einni gerð. Þessar sögur urðu veigamikill hluti íslenskra miðaldabókmennta og héldu vinsældum sínum meðal almennings allt fram til þess að siðbót Lúters náði undirtökum í trúarlífi Íslendinga. — Síðustu postulasögurnar voru settar saman á Íslandi á fyrri hluta 16. aldar og þá að mestu eftir lágþýskri bók með dýrlingasögum.

Þetta litla og látlausa handrit er síðbúið afsprengi hinnar kaþólsku helgibókagerðar á Íslandi, skrifað á bókfell rétt í þann mund sem átökin milli fylkinga í landinu um siðbót Lúters voru að hefjast og á þeim tímamótum þegar pappír var að leysa bókfellið af hólmi í bókagerð Íslendinga. Bókin geymir sögu Páls postula, eins af höfuðdýrlingum kaþólsku kirkjunnar, en hún er til í þremur gerðum á íslensku og eru tvær þeirra í fullri lengd (A og B-gerð) en sú þriðja er mikið stytt af stofni A-gerðar. Sagan í AM 84 8vo telst til B-gerðar sem er sú yngri af lengri gerðum íslensku sögunnar og talin hafa orðið til á fyrri hluta 14. aldar; hún er einnig varðveitt í Codex Scardensis (SÁM 1), einu glæsilegasta helgisagnahandritinu sem varðveist hefur frá blómaskeiði íslenskrar handritagerðar á 14. öld.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018