Skip to main content

Pistlar

Dómasafn vestan af fjörðum

AM 193 4to er skrifað á pappír um 1700 af um það bil tíu skrifurum sem flestir hafa starfað á Vestfjörðum. Handritið kom sennilega þaðan til Árna Magnússonar ásamt öðrum handritum sömu gerðar. Þetta handrit er 146 blöð, 21 kver, 21,3 sm á hæð, 17 sm á breidd, um 3 sm á þykkt. Kverin eru saumuð saman innan í ljósa skinnkápu sem brotin er til hálfs á framhlið bókarinnar og er henni lokað með þrígreindum skinnþvengjum sem festir eru við kápuna en út frá þeim liggur einn þvengur með tréhnapp á endanum. Brotið er inn á kápuna og var hún fóðruð innan með sendibréfum og prentblaði en nú hefur fóðrið verið fjarlægt og er varðveitt sérstakt. Efnislýsing er skrifuð framan á skinnkápuna.

 

Ljósmynd úr listaverki Gabríelu Friðriksdóttur "Crepusculum" 2011. Ljósmyndari Jiri Hronik.


 

 

Efni handritsins er safn prestastefnudóma (synodalia), biskupatilskipana og lagasetninga veraldlegra landstjórnarmanna frá 16. og 17. öld. Í handritinu eru að auki tvær ritgerðir til skýringar landslögum eftir sýslumann og sú þriðja eftir prest, báðir voru Íslendingar uppi á 17. öld. Textarnir í handritinu bera allir vott um löghlýðni og eljusemi íslenskra kennimanna sem uppskrifuðu margar bækur eins og þessa með dómum, lagagreinum og skipunum. Tilgangur prestanna með þessum uppskriftum var að hafa efnið sér til fyrirmyndar við að aga sóknarfólk sitt að háttsemi og trúarreglum sem voru fyrirskipaðar í dansk-norska konungsríkinu sem Íslendingar heyrðu undir. Textar þessa handrits höfðu því mikið notagildi fyrir þá sem söfnuðu efninu saman, skrifuðu það upp og höfðu það til fyrirmyndar þegar dæma þurfti í málum, til dæmis um hórdóm, hjúskaparbrot, vanhirðu um fjármál kirkjustaða, mistök presta, vanrækslu altarisgöngu, meiðyrði o. s. frv. Efni handritsins ber vitni um horfna lögskipan Íslendinga sem mótuð var af lútherskum rétttrúnaði. Textarnir eru flestir til í frumritum eða traustari uppskriftum og hafa því litla þýðingu við útgáfu.

Handritið var eitt þeirra átta handrita sem sýnd voru í Schirn Kunsthalle í Frankfurt á liðnu hausti í tilefni af heiðursþátttöku Íslands á Bókamessunni þar í borg.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 19. júní 2018