Skip to main content

Rímkver frá 17. öld

Handritaopna. Ljósmyndari: Jóhanna Ólafsdóttir.

AM 466 12mo er handrit í smáu broti, samtals fjögur kver sem vafin eru inn í spjaldalausa skinnkápu sem myndar eins konar umslag utan um þau. Innihaldið er rím (calendarium) eða tímatal með útskýringu, skrifað á sautjándu öld. Á Íslandi var lengi notað fornt tímatal við hlið hins rómverska, kirkjulega. Mikilvægt var fyrir fólk að geta reiknað út ákveðna daga og tímabil enda voru bækur með rími prentaðar oft eftir siðskipti auk þess sem rím er varðveitt í mörgum handritum. Í handritinu eru upphafsstafir víða í rauðum og grænum lit.

Fremst er dagatal eða listi yfir alla mánuði ársins. Þá koma teikningar með útskýringum sem lýsa fyrirbærunum sólaröld sem er 28 ára tímabil og tunglöld sem er 19 ára tímabil. Einnig eru leiðbeiningar um hvernig reikna má út ýmsa daga og tímaskeið, t.d. „að finna miðjan vetur eður inngang þorra“, „að finna 9 vikna föstu“, „um vikur og daga í ári“, „um 7 aukatungl“, „um imbruvikur“, um páska gyðinga, um stundir dagsins og um upphaf dagsins hjá ýmsum þjóðum. Flest er þetta í lausu máli en þó eru inn á milli vísur, t.d. vísa um aðventuupphaf.  Í handritinu eru engar upplýsingar um hver skrifaði það eða hvenær. Það gefur þó ákveðna vísbendingu að skriftin er svokölluð fljótaskrift sem algeng var á sautjándu öld og á fremsta blaði, sem upphaflega hefur verið autt, stendur Bjarni Björnsson, Vallholti, 1698. Af því má ráða að handritið er skrifað fyrir þann tíma og að eigandi þess í lok aldarinnar hafi verið Bjarni Björnsson sem fæddur var árið 1681 og er í manntalinu sem tekið var árið 1703 skráður vinnumaður í Vallholti í Skagafjarðarsýslu. Árni Magnússon hefur skrifað á seðil að hann hafi fengið handritið árið 1710 frá séra Skúla Þorlákssyni á Grenjaðarstað.

Birt þann 19.06.2018