Skip to main content
Þjóðsögur og -kvæði
Þjóðfræði er fræðigrein sem rannsakar alþýðumenningu, aðstæður fólks og samfélag á hverjum tíma og svo tjáningu þess, listfengi og fagurfræði hversdagsins. Á meðal viðfangsefna þjóðfræðinnar eru þjóðsögur, þjóðkvæði, þjóðlög, þjóðdansar, hátíðir og leikir, klæðnaður, matarhættir, heimilis- og atvinnuhættir, þjóðtrú, siðir og venjur.

Á menningarsviði eru stundaðar rannsóknir í þjóðfræði og unnið að margvíslegum verkefnum sem fyrst og fremst falla undir þá undirgrein þjóðfræðinnar sem er kölluð þjóðsagnafræði en hún fæst við rannsóknir á sögum og kvæðum, hverjir fluttu þau og hvernig. Miklu efni hefur verið safnað úr munnlegri geymd og er hljóðritasafn stofnunarinnar, sjá ismus.is, náma fyrir rannsóknir á þjóðsögnum, ævintýrum, kveðskap og þjóðháttum.
Verkefni
Áhrif Guðbrands Vigfússonar á útgáfu þjóðsagna Jóns Árnasonar
Munnleg hefð að baki íslenskum fornsögum og -kvæðum – og viðtökur þeirra
Í verkefninu er horft til þess hvaða áhrif það hefur á lestur nútímamanna á fornum textum að gera ráð fyrir lifandi munnlegri hefð að baki þeirra; hvernig ætla megi að fólk á ritunartíma textanna hafi skilið þá og túlkað í ljósi þeirrar munnlegu hefðar um svipað efni (persónur, ættir, atburði, ljóðform og goðsögur) sem ætla má að það hafi þekkt til – og sem textarnir vísa oft til.
Tilbrigði, texti og aðferðafræði við gerð á marktæku úrvali þjóðkvæðatexta með áherslu á íslenskar þulur síðari alda
Þessu verkefni er ætlað að þróa aðferðafræði fyrir skilvirkt textaval sem gefi af sér hnitmiðað úrval texta til rannsóknar eða útgáfu á þulum síðari alda, en úrvalið á að vera lýsandi fyrir helstu sérkenni þulna sem þjóðkvæðagreinar.