Skip to main content

Pistlar

Reykjarfjarðarbók Sturlungu

Dálkr var bróðir Þorgils Hafliðasonar. Hann var faðir Bersa, föður Dálks, föður Halldórs prests í Saurbæ, föður Þorsteins, er átti Ingigerði Filippuss dóttur, Sæmundar sonar. Þeira dóttir var Guðrún, er Benedikt átti fyrr, en síðar herra Kolbeinn Auðkýlingr. Hallbera abbadís var önnur dóttir Þorsteins bónda ok Ingigerðar.

Þannig endar ættartré sem er í lok Geirmundar þáttar heljarskinns í eftirritum Reykjarfjarðarbókar. En þátturinn er upphafið að hinni miklu sagnasamsteypu Sturlungu, sem fræðimenn telja að Skarðverjar á Skarðströnd hafi sett saman um aldamótin 1300. Hafi samsteypuhöfundurinn eða ritari hans skrifað þáttinn. En með þessum ættaskrám er samsteypan ekki einasta tengd ætt og völdum Skarðverja heldur einnig klaustrinu á Stað í Reynisnesi sem Jörundur Þorsteinsson Hólabiskup stofnaði 1295 og Hallbera abbadís veitti andlega forstöðu frá 1299 til dauðadags um 1330.

Um miðja 17. öld var Sturlunga varðveitt á tveimur skinnhandritum sem þá voru næsta heil. Á þessum tíma voru gerð afrit á pappír af báðum handritunum. En áður en Árni Magnússon komst yfir skinnhandritin um og upp úr 1700 höfðu þau skemmst illa. Þau eru nú númer 122a og b fol. í Árnasafni.

Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir.

Danski handritafræðingurinn Kristian Kålund, sem fyrstur rannsakaði handrit Sturlungu til nokkurrar hlítar, kallaði AM 122a Króksfjarðarbók, þar sem handritið var að líkindum varðveitt í Króksfirði á síðmiðöldum. Samkvæmt skoðun Stefáns Karlssonar var þetta skinnhandrit líklega skrifað upp úr 1360. Upphaflega mun það hafa verið 141 blað en aðeins 110 blöð eru nú varðveitt, sum skert. Síðarnefnda skinnhandritið kallaði Kålund Reykjarfjarðarbók en Gísli Jónsson í Reykjarfirði við Arnarfjörð (d. 1679), sonarsonur Magnúsar Jónssonar prúða í Ögri (d. 1591), átti það heilt um miðja 17. öld. Að ætlan Stefáns Karlssonar var handrit þetta ritað á síðasta fjórðungi 14. aldar. Aðeins 30 blöð eða blaðslitur eru nú varðveitt af Reykjarfjarðarbók en í upphafi hefur hún að líkindum verið um það bil 180 blöð.

Kålund lýsti leifunum af Reykjarfjarðarbók í formála að útgáfu sinni á Sturlungu, sem kom út í tveimur bindum í Kaupmannahöfn 1906-11. Bókin hefur upphaflega verið c. 33 x 25 cm. að stærð og tveir dálkar á síðu. Líklega hafa verið tólf blaða kver í bókinni. Blöðin, sem varðveist hafa, eru illa farin þar sem þau hafa verið notuð í band, brotin saman í hnífskeiðar eða höfð í snið eftir að skinnbókin hafði skemmst og síðan losnað í blöð. Af þeim 30 blöðum sem varðveist hafa í einhverri mynd geyma 3 texta Árna sögu Þorlákssonar biskups sem bætt var við Sturlungu í Reykjarfjarðarbók og 3 geyma Jarteinir Guðmundar biskups sem einnig var bætt við í þessari gerð Sturlungu.

Kålund taldi að tvær hendur væru á handritaleifunum sem varðveittar eru en Ólafur Halldórsson fjórar. Stefán Karlsson áleit hins vegar að handritið gæti verið skrifað af einum og sama manni en á allöngum tíma. Þeir Ólafur og Stefán voru sammála um að langlíklegast væri að rekja mætti uppruna skinnbókarinnar til Skagafjarðar. Stefán staðnæmdist við að hún hefði verið skrifuð fyrir Brynjólf ríka Bjarnason á Ökrum (d. 1381) sem um eitt skeið var ráðsmaður í Reynistaðarklaustri en hann var í hópi höfðingja á sinni tíð. Taldi Stefán að ef till vill væri bókin skrifuð af Birni, syni Brynjólfs. Þeir Ólafur, Stefán og Peter Foote hafa rakið allmörg handrit til sama skrifaraskóla – og varðveita þau m.a. Ólafs sögu TryggvasonarJónsbókTveggja postulasögu Jóns og Jakobs og aðrar Postulasögur. Líklega hefur þessi skrifaraskóli bæði tengst klaustrinu og Ökrum í Skagafirði. Ættfærsla Hallberu abbadísar vísi til klaustursins en ritun Reykjarfjarðarbókar sé dæmi um hið menningarlega auðmagn sem höfðingjarnir töldu liggja í handritaeign.

Árni Magnússon hafði spurnir af Reykjarfjarðarbók og gerði gangskör að því að ná saman slitrum hennar eftir því sem unnt var á árunum 1701-24. Bréfaskipti hans og athugasemdir er að finna í AM 122 c og vitna um elju hans við handritasöfnunina. En leifar bókarinnar sýna hvernig farið var með skinnbækur þegar þær höfðu lokið hlutverki sínu eftir að eftirrit höfðu verið gerð á pappír.

Um fjörutíu pappírshandrit, sem runnin eru frá skinnbókunum, eru enn geymd. Eins og áður sagði eru sum þeirra frá 17. öld en nokkur eru ekki eldri en frá fyrri hluta 19. aldar. Ekkert þeirra hefur texta annarrar bókarinnar óblandaðan af texta hinnar.

Björn Jónsson á Skarðsá (d. 1655), sem alinn var upp á Reynistað í Skagafirði, skrifaði Reykjarfjarðarbók upp um 1635 fyrir Þorlák biskup Skúlason og var hún þá heil. Hann notaði einnig Króksfjarðarbók en gerði grein fyrir því hvað var tekið úr hvoru handriti. Þetta handrit er nú glatað en öll varðveitt eftirrit Reykjarfjarðarbókar eru frá því runnin.

Þar sem elstu handrit Sturlungu eru illa varðveitt og textum þeirra blandað saman í eftirritum er oft erfitt að vita hvað heyrði til hverjum texta og raunar ómögulegt að endurgera frumritið. Kålund hélt því samt fram að texti Króksfjarðarbókar væri frumlegri en sá í Reykjarfjarðarbók þótt í honum væru nokkrir viðaukar og hann oft styttur. Hins vegar væru miklu meiri viðaukar í texta Reykjarfjarðarbókar en orðalag hans væri þó stundum upprunalegra en í Króksfjarðarbók. Breska fræðikonan Ursula Brown (Dronke) rannsakaði aftur á móti texta Þorgils sögu og Hafliða og J. Simpson og I. R. Hare textaPrestssögu Guðmundar Arasonar og Guðmundar sögu dýra. Þau komust að þeirri niðurstöðu að Reykjarfjarðarbók og eftirrit hennar varðveittu upphaflegri texta þessara sagna en Króksfjarðarbók. Þá hefur Ólafía Einarsdóttir borið texta Sturlungu saman við annála, sem sækja efni í frumrit samsteypunnar, og bent á að báðar skinnbækurnar hljóti að vera styttingar á frumritinu.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018
Heimildir

Brown, Ursula. 1952b. „A Note on the Manuscripts of Sturlunga saga.“ Acta Philologica Scandinavica 22: 33-40.
Jakob Benediktsson. 1972. „Sturlunga saga.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder fra vikingetid til reformationstid. 22 bindi. Kaupmannahöfn: Rosenkilde og Bagger, 1956-78. 17. b. Bls. 355-59.
Kålund, Kristian. 1901. „Om håndskrifterne af Sturlunga saga og dennes enkelte bestanddele.“ Aarbøger for nordisk oldkyndighed og historie. Bls. 259-300.
– . 1906-11. Formáli. Sturlunga saga. Ritstj. Kristian Kålund. 2 b. Kaupmannahöfn: Det kongelige nordiske oldskrift-selskab. 1. b. Bls. i-lxxiv.
Ólafía Einarsdóttir. 1968. „Om de to håndskrifter af Sturlunga saga.“ Arkiv för nordisk filologi 83: 44-80.
Ólafur Halldórsson. 1963. „Úr sögu skinnbóka.“ Skírnir 137: 83-105
Simpson, J. og I. R. Hare. 1960. „Some Observations on the Relationship of the II-Class Paper MSS of Sturlunga saga.“ Opuscula 1 (Bibliotheca Arnamagnæana 20). Kaupmannahöfn: Munksgaard. Bls. 190-200.
Stefán Karlsson. 1967. Inngangur. Sagas of Icelandic Bishops: Fragments of eight manuscripts (Early Icelandic Manuscripts in Facsimile 7). Kaupmannahöfn: Rosenkilde. Bls. 9-60.
– . 1970. „Ritun Reykjarfjarðarbókar. Excursus: Bókagerð bænda.“ Opuscula 4 (Bibliotheca Arnamagnæana 30). Kaupmannahöfn: Munksgaard. Bls. 120-30.
Svanhildur Óskarsdóttir. 2006. „Genbrug i Skagafjörður: Arbejdsmetoder hos skrivere i klostret på Reynistaður.“ Reykholt som makt- og lærdomssenter i den islandske og nordiske kontekst. Ritstj. Else Mundal. Reykholt: Snorrastofa. Bls. 141-53.