Árnastofnun er aðili að CLARIN ERIC sem er rannsóknarinnviðaverkefi á vegum Evrópusambandsins. CLARIN stendur fyrir „Common Language Resources and Technology Infrastructure“ og ERIC stendur fyrir „European Research Infrastructure Consortium“. Samþykktir CLARIN ERIC hafa verið staðfestar af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Meginmarkmið CLARIN ERIC er að öll stafræn málföng og búnaður frá allri Evrópu (og víðar) verði aðgengileg með einni innskráningu á netið, til nota í rannsóknum í hug- og félagsvísindum og innan máltækni.
CLARIN á Íslandi
Ísland fékk aðild að CLARIN ERIC 1. febrúar 2020 en hafði verið áheyrnaraðili frá 1. nóvember 2018. Mennta- og menningarmálaráðuneytið fól Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að vera leiðandi aðili í landshópi Íslands í verkefninu og tilnefndi Eirík Rögnvaldsson prófessor emeritus sem landsfulltrúa (national coordinator). Þann 1. október 2021 tók Starkaður Barkarson, verkefnastjóri á Árnastofnun, við stöðu landsfulltúra. Flestar stofnanir sem málið varðar taka þátt í landshópi CLARIN-IS.
Árnastofnun rak fyrstu árin lýsigagnamiðstöð (CLARIN C-centre) sem hýsir lýsigögn íslenskra málfanga og dreifir þeim gegnum sýndarsafn málfanga. Árið 2023 var Árnastofnun samþykkt sem tæknileg þjónustumiðstöð (Service Providing Centre, CLARIN B-centre) þangað sem unnt er að sækja ákveðna þjónustu og fá aðgang að gögnum og þekkingu.