Skip to main content

Pistlar

Melsteðs Edda SÁM 66

Konungsbók Eddukvæða frá um 1270 er elsta safn eddukvæða og frægust allra íslenskra bóka við hlið Eddu Snorra Sturlusonar (1178/9–1241). Kvæðin fjalla um heiðin goð og hetjur en þekking á kvæðunum liggur til grundvallar goða- og skáldskaparfræðinni í Snorra Eddu. Þessar tvær merkustu heimildir um forna norræna goðafræði og samgermanskar hetjusögur um Sigurð Fáfnisbana og Niflunga sameinast í handritinu SÁM 66 sem Jakob Sigurðsson (um 1727-1779) skrifaði á árunum 1765 og 1766. Nafn skrifarans er fólgið í rammvillingsletri sem Jónas Kristjánsson réð. Auk textans teiknaði Jakob myndir sem spegla sýn samtíðarmanna hans á forna guði og umhverfi þeirra, ekki ósvipað öðrum handritum frá 17. og 18. öld með aski Yggdrasils og ófreskjunum Miðgarðsormi og Fenrisúlfi. 

Þór dregur Miðgarðsorm í veiðiferð með Hymi jötni. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir
Valhöll og geitin Heiðrún. Úr spenum Heiðrúnar rennur mjöður sá er allir einherjar verða fulldrukknir af. Einherjar berjast alla daga sér til skemmtunar og ríða svo heim til hallarinnar að kvöldi og setjast til drykkju. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir.
Loki Laufeyjarson með netið í bakgrunni. Ljósmynd Jóhanna Ólafsdóttir.

Í handritinu eru einnig kaflar um tímatalsfræði, gang himintungla og reikningslist, sem eru vísbending um að hin fornu tengsl goðafræðiþekkingar við himinhvolfið hafa verið lifandi þekking á ritunartíma handritsins. Þetta handrit er því bæði til vitnis um hvernig skáldskaparfræði miðalda hafði áhrif á ljóðlist síðari alda á Íslandi um leið og goðafræðin lagði grunn að orðfæri um þau fyrirbæri sem fólk sá á himninum.

Jakob Sigurðsson skrifaði og myndskreytti fjölmörg handrit á sinni tíð, á milli þess sem hann fluttist með sívaxandi fjölskyldu á milli kota á Austurlandi. Á Landsbókasafni eru 14 safnnúmer um handrit hans, hið mesta uppá 339 blöð með 15 riddara-, ævintýra- og fornaldarsögum. Þá skrifaði hann sálmahandrit sem Handritastofnun, forveri Árnastofnunar, fékk að gjöf árið 1967. Af því tilefni birti Benedikt Gíslason frá Hofteigi mikla grein um Jakob í Jólablaði Þjóðviljans. Jakob hóf búskap upp úr tvítugu með Ingveldi Sigurðardóttur árið 1749 og bjó þá í Jórvík í Breiðdal. Þau fara eftir það á milli kota í Vopnafirði uns Jakob deyr á Breiðumýri í Selárdal árið 1779, rétt liðlega fimmtugur faðir að minnsta kosti 7 barna. Skólaganga og veraldarauður komu ekki við ævisögu Jakobs en hin andlegu gildi hafa verið þeim mun meiri eins og sjá má af þessari vísu sem ort var um hann látinn:

Nú er Jakob fallin frá
frí við raunir harðar
skrifari bæði og skáld var sá,
skemmtun Vopnafjarðar.

Á aftasta blaði handritsins stendur að Gísli Gíslason í Skörðum eigi með réttu bókina Eddu. Gísli (1797-1859) var bóndi, skáld og bókbindari í Skörðum í Reykjahverfi og átti sjálfur 68 bindi bóka þegar hann dó. Hann bjó um tíma á Auðnum í Laxárdal, hjáleigu Þverár en Þverá tengir handritið óbeint við sjálfstæðisbaráttuna þar sem í band bókarinnar var notað rifrildi úr bréfi Jóns Sigurðssonar forseta til Jóns Jóakimssonar á Þverá, föður Benedikts á Auðnum. Sonur Gísla var Arngrímur Gíslason málari 1829-1887, fyrsti íslenski málarinn í nútímaskilningi. Vel má vera að Arngrímur hafi fyrst kynnst myndlist á þessari bók.

Önnur nöfn innan á bókarkápunni gætu verið til vitnis um ferð bókarinnar úr Vopnafirði að Skörðum:

1) Sigurður Sigurðsson. Samkvæmt manntalinu 1835 var á Ytri-Hlíð í Vopnafirði bóndi með þessu nafni. Hann var þá orðinn 64 ára. Ytri-Hlíð er skammt frá Breiðumýri þar sem Jakob Sigurðsson lést árið 1779.
2) Finnbogi Sigurðsson. Samkvæmt manntalinu 1835 var á Flautafelli í Þistilfirði vinnumaður með þessu nafni, þá 69 ára.
3) Ísak Þorsteinsson. Ísak var samkvæmt manntölunum 1835 og 1840 vinnumaður Skarða-Gísla, í Skörðum (1835 er hann 58 ára).
4) Eitt nafn til má lesa á aftasta blaði: „St. Petersen“. Engin kennsl hafa verið borin á það nafn.

Þá er skráð nafn Magnúsar Guðmundssonar, föður ekkjunnar Elínar Sigríðar sem fór með handritið og sex börn sín frá Halldórsstöðum í Kinn til Kanada árið 1876. Það er til marks um hlutverk bókarinnar í íslenskri alþýðumenningu á 19. öld að óskólagengin kona með sex börn skuli hafa lagt það á sig að ferðast með þetta handrit á vit nýrra heimkynna í Vesturheimi. Elín Sigríður nam land rétt hjá Gimli. Bæ sinn nefndi hún Melstað og er Melsted ættarnafn afkomenda hennar. Af því dregur handritið nafn sitt og er kallað Melsteðs Edda. Eitt barna Elínar var Jóhannes Frímann Magnússon Melsted, fæddur á Gvendarstöðum í Kinn 1859. Jóhannes bjó seinna stórbúi að Garðar í Norður Dakota þar til hann fluttist að Wynyard í Saskatchewan árið 1910. Sonur hans var Leo Melsted, fæddur 1902, bóndi í Wynyard, faðir Kenneth Melsteds, sem fæddist 19. júní 1931 og varð seinna stórbóndi á ættaróðali sínu.

Fjölskylda Arnar Arnar, ræðismanns Íslands í Minnesota í Bandaríkjunum, keypti handritið af Kenneth Melsted og gaf það til Árnastofnunar við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðu 13. febrúar árið 2000. Það hafði þá verið um hríð til rannsóknar á stofnuninni eftir að Haraldur Bessason prófessor í Winnipeg, hafði haft milligöngu um að koma því til Íslands á 8. áratug 20. aldar. Þá komu þeir Leo og Kenneth Melsted með handritið og fólu stofnuninni það til varðveislu.

Jakobs Sigurðssonar og Melsteðs Eddu verður minnst sérstaklega við vígslu Fossgerðis, nýs veiðihúss í Selárdal skammt frá Breiðumýri, hinn 23. júní nk.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018