Máltækni
Á íslenskusviði eru stundaðar rannsóknir í máltækni með áherslu á málleg gagnasöfn, málheildir, og greiningu og hagnýtingu á þeim. Einkum eru stundaðar rannsóknir á færni myndandi mállíkana til að búa til texta, hvort sem það felur í sér að mæla nákvæmni þýðingarvéla eða smíði málfræðilegra prófa fyrir mállíkön. Þá er máltækni hagnýtt til að styðja við aðrar rannsóknir og starfsemi stofnunarinnar, s.s. við orðabókargerð og málrannsóknir, greiningu á eldri tal- og textagögnum, og við uppbyggingu mállegra gagnasafna. Stofnunin gefur út einmála og samhliða málheildir og sinnir þróun á framsetningu þeirra og sjálfvirkum aðferðum við leiðréttingar, síun og greiningu á málgögnum. Rannsóknirnar eru liður í máltækniáætlun stjórnvalda.
Verkefni
Millimál og vélþýðingar í orðabókargerð
Verkefnið hófst um mitt ár 2021. Notaðar eru aðferðir máltækninnar þar sem jafnheiti úr veforðabókunum ISLEX (danska, norska, sænska og finnska) og LEXÍU (franska og þýska) eru notuð sem millimál ('pivot-mál') milli íslensku og ensku.
Skapandi gervigreind og kennsla íslensku sem annars máls
Í verkefninu er meðal annars lögð áhersla á að nota spurningasvörunina ChatGPT til að búa til fjölþætt námsefni fyrir íslensku sem annað mál annars vegar og íslenskt táknmál (ÍTM) hins vegar með það að markmiði að styðja við lestrarfærni nemenda sem eru mislangt á veg komnir í tungumálunum tveimur samkvæmt Evrópska tungumálarammanum (e. Common European Framework of Reference for Languages – CEFR).