Skip to main content

Röskun verður á þjónustu Árnastofnunar næstu mánuði. Sjá nánar.

Máltækni

Máltækni
Stofnunin annast hagnýt og fræðileg verkefni á sviði máltækni með því markmiði að styðja málrannsóknir, gerð orðabóka og efla þróun máltæknibúnaðar. Afrakstur slíkra verkefna nýtist bæði innan og utan stofnunarinnar. Á meðal verkefna sem heyra undir máltækni eru Risamálheildin sem er málfræðilega markað safn íslenskra texta, og Samhliða málheild milli íslensku og ensku.

Unnin hefur verið verkáætlun fyrir máltækni í íslensku 2018-2022. Markmið með áætluninni er að tryggja að hægt sé að nota íslensku sem samskiptamáta í tækniheiminum.
CLARIN
Stofnunin er aðili að CLARIN (Common Language Resources and Technology Infrastructure) sem er eitt af rannsóknarinnviðaverkefnum Evrópusambandsins.

Meginmarkmið CLARIN ERIC er að öll stafræn málföng (language resources) og búnaður frá allri Evrópu (og víðar) verði aðgengileg með einni innskráningu (single sign-on) á netið, til nota í rannsóknum í hug- og félagsvísindum og innan máltækni.

Eiríkur Rögnvaldsson er landsfulltrúi.
Beygingarlýsing íslensks nútímamáls
Beygingarlýsing íslensks nútímamáls (BÍN) er safn beygingardæma sem birt eru í heild á vefsíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Safnið geymir beygingu sem flestra orða í íslensku nútímamáli.

Markmið BÍN var frá upphafi að koma upp beygingarlýsingu á tölvutæku formi sem nýtast mætti til máltækniverkefna, við orðabókargerð og við málfræðirannsóknir ásamt því að gera beygingarlýsinguna aðgengilega fyrir almenning á vefnum.
Risamálheildin
Í Risamálheildinni eru um 1300 milljónir lesmálsorða af texta. Hluti textanna er opinberir textar (Alþingisræður allt frá 1907, lagatextar, dómar). Einnig fengust stór textasöfn frá ýmsum fjölmiðlum. Risamálheildin er mörkuð. Málfræðigreiningin gefur færi á markvissri leit í textunum. Verkið var unnið á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum á árunum 2015 til 2017 að mestu fyrir styrki frá Innviðasjóði, Mótframlagasjóði Háskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Málföng.is
Vefurinn Málföng.is inniheldur tengla á málgögn, máltól og vefþjónustur á sviði íslenskrar máltækni. Auðvelt er að nálgast þessi málföng sem sum hver eru tilbúin en önnur eru enn í vinnslu.