Skip to main content
Málsaga
Á Árnastofnun eru stundaðar málsögurannsóknir af ýmsu tagi, bæði rannsóknir á þróun málsins með samanburði á málnotkun í textum frá ólíkum tímum og samtímalegar rannsóknir á máli og málnotkun á tilteknu tímaskeiði. Málsaga tekur til allra þátta málsins, jafnt til formlegra þátta sem snerta rithátt og hljóðkerfi, beygingu og setningagerð og til merkingarlegra þátta og málnotkunar. Þar sem tungumálið er samfélagslegt og menningarlegt fyrirbæri verður líka að huga að ytri aðstæðum á hverjum tíma því að þær hafa margvísleg áhrif á málið og þróun þess, t.d. samfélagsbreytingar, viðhorf málnotenda og samfélags til málsins og tengsl við önnur tungumál.

Málsöguleg nálgun kemur meðal annars við sögu í rannsóknum á orðaforðanum og á orðum, þar með talið nöfnum og notkun þeirra, í rannsóknum á bragarháttum og rannsóknum á textum frá ýmsum tímum, bæði í handritum og prentuðum bókum.
Verkefni
Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals
Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á mál og málnotkun á 19. öld og þróun hennar eins og hún birtist í blöðum, tímaritum og persónulegum einkabréfum. Hún er samstarfsverkefni fræðimanna við stofnunina, Háskóla Íslands, Uppsalaháskóla og Vrije Universiteit Brussel.