Spjall um orðabækur á Amtsbókasafninu á Akureyri
Amtsbókasafnið á Akureyri
Brekkugötu 17
Akureyri 600
Ísland
Helga Hilmisdóttir, sviðsstjóri íslenskusviðs Árnastofnunar, verður á Amtsbókasafninu á Akureyri 9. október þar sem hún mun segja frá orðabókum og gagnasöfnum á vegum stofnunarinnar.
Hvaða orðabækur eru aðgengilegar á vefnum og hvar finn ég þær? Af hverju er stofnunin með svona margar orðabækur og hver er munurinn á þeim? Eru fleiri orðabækur á leiðinni? Hvað vantar?
Kennarar, nemendur og allt áhugafólk um íslenska tungu er hvatt til þess að koma og ræða málin.
Ársfundur Nordiskt forum för folkmusikforskning och -dokumentation
Árlegur fundur Nordiskt forum för folkmusikforskning och -dokumentation verður haldinn á Íslandi 20. og 21. nóvember 2024.
NoFF er samstarfsnet norrænna þjóðlagafræðinga sem tengjast þjóðfræðisöfnum. Fundir eru haldnir árlega, til skiptis í Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Tengiliður á Íslandi er Rósa Þorsteinsdóttir.
Umsóknarfrestur um styrk til BA-náms í íslensku sem öðru máli
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast umsýslu með styrkjum menningar- og viðskiptaráðuneytis til erlendra stúdenta til að stunda íslenskunám við Háskóla Íslands.
Árlega eru veittir um það bil tólf styrkir til BA-náms í íslensku sem öðru máli. Nemendur verða að hafa lokið a.m.k. einu námsári á háskólastigi.
Umsóknarfrestur er til 1. desember. Sjá nánari upplýsingar um styrkinn og skráningarblað á ensku.
Umsóknarfrestur um styrki Snorra Sturlusonar
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast styrki Snorra Sturlusonar. Styrkirnir eru veittir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum (ekki háskólastúdentum) á sviði hugvísinda til að dveljast á Íslandi í þrjá mánuði hið minnsta í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi.
Styrkirnir miðast að öllu jöfnu við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega til og frá Íslandi og dvalarkostnaði innanlands. Af tveimur jafnhæfum umsækjendum skal að jafnaði sá hljóta styrk sem er frá Austur- og Suður-Evrópu, Asíu, Afríku, Rómönsku Ameríku eða Eyjaálfu.
Umsóknarfrestur er til 1. desember. Sjá nánar um styrkinn og skráningarblað á upplýsingasíðu.