Skip to main content

Þjóðfræðisafn

Á Íslandi er ekki sérstök þjóðfræðistofnun, en það hefur fallið í hlut Árnastofnunar og þjóðháttadeildar Þjóðminjasafns Íslands að sinna þeim fræðum. Á vegum stofnunarinnar og að nokkru leyti í samvinnu við aðra, einkum Ríkisútvarpið, hefur mikið þjóðfræðaefni verið hljóðritað á segulbönd. Að því hafa einkum unnið Hallfreður Örn Eiríksson, sem var ráðinn að stofnuninni árið 1965 til þess að sinna þjóðfræðum, og þau Jón Samsonarson og Helga Jóhannsdóttir, sem söfnuðu efni á árunum 1963-73.

Þessir fræðimenn ferðuðust um landið þvert og endilangt, fóru heim á bæi, töluðu við fólk og tóku upp sögur, lýsingar á þjóðháttum og atvinnuháttum, kvæði, sálma, þulur, rímur, lausavísur og margt fleira og er það ýmist mælt fram, sungið eða kveðið. Einnig var gamalt fólk í Reykjavík heimsótt, bæði á heimili þess og á elliheimili.

Þjóðfræðiefni hefur þannig verið safnað í öllum sveitum landsins og einnig í Íslendingabyggðum vestan hafs.

Í safninu eru einnig minni söfn nokkurra annarra fræðimanna og áhugamanna og auk þess afrit af þjóðfræðiefni frá Ríkisútvarpinu, af efni sem er í eigu Þjóðminjasafns Íslands og af upptökum Kvæðamannafélagsins Iðunnar. Elsta efnið í segulbandasafninu eru afrit af þjóðlögum sem hljóðrituð voru á vaxhólka á árunum 1903-1912. Stór hluti heimildarmanna er fæddur um og fyrir aldamótin 199; sá elsti var fæddur 1827. En söfnun þjóðfræða er aldrei lokið og safnið fer sístækkandi. Á hverju ári leggja nemendur í þjóðfræði við Háskóla Íslands efni inn á safnið, auk þess sem enn er safnað á vegum stofnunarinnar. Eftir aldamótin 2000 hefur efni einnig verið safnað með lifandi myndum.

Varðveisla og flokkun

Árið 1984 var hafist handa um að flytja efni safnsins af upptökuböndunum yfir á vandaðri bönd sem er mjög mikilvægt fyrir varðveislu efnisins og notkun þess. Var sú vinna í höndum Jóns Sigbjörnssonar, tæknimanns, og Helgu Jóhannsdóttur sem skráði allt efnið jafnóðum. Gísli Sigurðsson skipulagði síðan og hratt af stað skráningu efnisins í tölvugagnagrunn árið 1994. Það verk hefur Rósa Þorsteinsdóttir unnið. Markmiðið var að efnisflokka safnið og skrá þannig að það verði aðgengilegt eftir ýmsum leiðum. Í tölvuskránni er tekið fram hvenær og hvar efnið var tekið upp og hver gerði það. Þá er skráð nafn heimildarmanns og fæðingarár, heimili hans og uppruni.

Efninu er síðan lýst meðal annars með því að greina:
form: bundið mál er greint í kvæði, rímur, þulur, sálma o.s.frv. en laust mál í ævintýri, sagnir, reynslusagnir, lýsingar o.fl.
flutningsmáta: hér er sagt um bundið mál hvort það er sungið, kveðið eða mælt fram.
efnisorð: þau eru tekin af stöðluðum efnisorðalista, sem hefur að mestu leyti orðið til jafnhliða skráningunni.
efni: stuttur útdráttur úr sögum og frásögnum, en heiti og/eða upphaf þess kveðskapar sem farið er með.

Margt hefur breyst og þróast frá því að tölvuskráning þjóðfræisafnsins hófst árið 1994, bæði varðandi framsetningu efnisins og tæknina sem hægt er að beita. Árið 2000 hófst samstarf við Músík og sögu, sem síðan hefur þróast í samstarf við Tónlistarsafn Íslands, um gagnagrunninn Ísmús. Rósa Þorsteinsdóttir hefur tekið virkan þátt í þróun gagnagrunnsins sem hefur það meðal annars að markmiði að geyma og birta á vefnum gögn er varða íslenska menningu fyrr og nú: hljóðrit, ljósmyndir, kvikmyndir og texta.

Nýr Ísmús vefur var opnaður 8. júní 2012 og er nú hægt að leita eftir efni í þjóðfræðisafninu eftir ýmsum leiðum og hlusta á stóran hluta þess. Einnig er hægt að fá afrit af efni í safninu til notkunar í fræðilegum og listrænum tilgangi og til birtingar eftir atvikum.