6. desember 2021
Ein af útgáfubókum ársins 2021 hefur titilinn Sprakkar. Þótt form orðsins sé kunnuglegt — það rímar t.d. við orðmyndir eins og krakkar, stakkar, þakkar og pakkar — gæti það komið mörgum málnotendum ókunnuglega fyrir sjónir enda hafa höfundur bókarinnar og útgefendur séð ástæðu til að útskýra að þetta sé fleirtala af gömlu íslensku orði, sprakki, sem merki ‘röskleikakona, kvenskörungur’. Fjölmargar íslenskar orðabækur staðfesta tilvist þess í málinu frá gamalli tíð og finna má allmörg dæmi um orðið í söfnum Orðabókar Háskólans.