Skip to main content

Röskun verður á þjónustu Árnastofnunar næstu mánuði. Sjá nánar.

Nafnfræði

Nafnfræði
Á stofnuninni er unnið að margvíslegum verkefnum sem snerta örnefni og nafnfræði. Neðar á þessari síðu eru nánari upplýsingar um starfsemina.

Nafnfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er arftaki Örnefnastofnunar Íslands.

Starfsmenn sviðsins vinna náið með Örnefnanefnd, veita upplýsingar um starfsemi nefndarinnar og taka við erindum til hennar.
Hafa samband
Heimilisfang: Laugavegi 13, 101 Reykjavík. Netfang: nafn [hjá] arnastofnun.is

Emily Lethbridge, stofustjóri, sími 525-4432
Aðalsteinn Hákonarson (adalsteinn.hakonarson@arnastofnun.is), sími 525-4433
Birna Lárusdóttir (birna.larusdóttir@arnastofnun.is), sími 525-4244
Ráðgjöf
Nafnfræðisvið veitir ráðgjöf og svarar fyrirspurnum um örnefni, mannanöfn og annað sem tengist nafnfræði. Fyrirspurnir er hægt að senda á netfangið nafn [hjá] arnastofnun.is eða beint til starfsmanna sviðsins.

Stofnun Árna Magnússonar er með lögum falið að vera til ráðgjafar fyrir almenning og stofnanir um söfnun, skráningu og varðveislu örnefna og jafnframt um nýjar nafngiftir.

Fólk í nærumhverfi á jafnan frumkvæði að nýjum örnefnum, t.d. gera eigendur eða ábúendur jarða tillögur að nöfnum á býlum og nýjum náttúrufyrirbærum.

Nafnfræðisvið veitir ráðgjöf og leiðbeiningar í þeim tilgangi að nýjar nafngiftir samræmist markmiðum laga um örnefni, sem m.a. lúta að varðveislu nafngiftahefða.
Örnefnasafn
Í örnefnasafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru geymdar skrár yfir örnefni á Íslandi. Kjarninn í safninu eru skrár yfir örnefni á flestum jörðum á landinu, en einnig eru varðveittar skrár yfir örnefni á mörgum afréttum og svæðum á hálendinu, auk t.d. skráa um nöfn á miðum.

Hægt er að óska eftir því að fá afrit af skrám send í tölvupósti með því að hafa samband í gegnum netfangið nafn [hjá] arnastofnun.is.

Örnefnaskrárnar eru flokkaðar eftir sýslum og hreppum og tekur safnið mið af þeirri skipan sem var við lýði kringum 1970, sjá yfirlit yfir sýslur og hreppa. Einnig er hægt að leita að staðsetningu bæja í hrepp og sýslu með því að fara í Bæjatalið.
Fróðleikur um örnefni og önnur nöfn
Á vef stofnunarinnar eru fjölmargir pistlar um örnefni og annað nafnfræðilegt efni. Einnig eru birt eldri svör við spurningum um örnefni.

Leitarvél vefsins leitar í öllu þessu efni og áður en fyrirspurn er send er rétt að athuga hvort ekki sé þegar búið að svara spurningunni.
Nafnfræðirannsóknir
Á nafnfræðisviði stofnunarinnar eru stundaðar rannsóknir á örnefnum og nafnfræði almennt.

Nafnfræði er ein grein málfræði enda eru nöfn hluti af tungumálinu. Nöfn eru einnig viðfangsefni rannsókna í öðrum fræðigreinum og með nafnfræði er þess vegna einnig átt við hvers kyns rannsóknir þar sem nöfn eru í forgrunni, hvort sem litið er á þau frá sjónarhorni t.d. málfræði, sagnfræði, fornleifafræði, mannfræði, félagsfræði eða ættfræði.
Örnefnagrunnur LMÍ
Nafnfræðisvið á í samstarfi við Landmælingar Íslands (LMÍ) um skráningu, miðlun og viðhald örnefnagrunns.

LMÍ hafa útbúið verkfæri til skráningar örnefna í örnefnagrunn í gegnum vefinn. Í kerfinu er hægt að staðsetja örnefni á korti eða loftmynd. Þessi vinna fer fram í samvinnu við staðkunnugt fólk og gegna örnefnalýsingar úr örnefnasafni þarna lykilhlutverki.

Afrakstur skráningarvinnunnar er birtur í Örnefnasjá LMÍ og í gagnagrunninum IS 50V.
Örnefnaskrár á Sarpi
Hluti af örnefnaskrám úr örnefnasafni stofnunarinnar er aðgengilegur í Sarpi sem er menningarsögulegt gagnasafn.

Því miður er enn sem komið er aðeins um sjötti hluti örnefnasafns kominn inn í Sarp.
UNGEGN
Sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna um landafræðiheiti.

Nafnfræðisvið tekur þátt í starfi Norðurlandadeildar (Norden Division) UNGEGN.

Nefndin stuðlar að því að örnefnum sé safnað og þau gerð aðgengileg og hvetur til góðra starfshátta við örnefnastýringu.
NORNA
Norræn samvinnunefnd um rannsóknir í nafnfræði skipuð nafnfræðingum frá Norðurlöndunum.

Nefndin stuðlar að rannsóknum í nafnfræði á Norðurlöndunum og hvetur til samstarfs meðal norrænna fræðimanna á sviðinu. Aðalsteinn Hákonarson er núverandi fulltrúi Íslands í nefndinni.

Í gegnum NORNA er Ísland aðili að Alþjóðasamtökum nafnfræðinga, ICOS.
Nefnir
Nefnir er vefrit Nafnfræðifélagsins og Nafnfræðisviðs. Þar birtast greinar á sviði nafnfræði, t.d. um örnefni eða mannanöfn. Birtar eru stuttar greinar jafnt sem langar og eru þeir sem eiga í fórum sínum efni hvattir til að senda það til birtingar. Ritstjórn áskilur sér allan rétt til að hafna greinum ef svo ber undir. Enginn sérstakur útkomutími vefritsins er ákveðinn heldur verða greinar birtar eftir því sem þær berast. Athugasemdir og fyrirspurnir sendist á netfangið nafn [hjá] arnastofnun.is.

ISSN-númer: ISSN 1670-4436