Mál og samfélag
Á íslenskusviði eru stundaðar rannsóknir á máli og málnotkun með áherslu á samspil ýmissa ytri þátta við hina formlegu þætti tungumálsins og þróun þeirra. Sjónarhornið tengist gjarna málsamfélaginu í heild eða miðast við einstaka málnotendur og hópa fólks; við breytilegar málaðstæður og hið fjölbreytilega samhengi sem málnotkun birtist í. Hér má nefna rannsóknir á forsendum, virkni og takmörkunum málstefnu og málstýringar, á stöðlunarferli ritmáls, á arfleifð hreintunguhyggju og á sambandi lýsandi og vísandi málfræðiiðkunar. Þá eru stundaðar rannsóknir á sambandi ytri þátta, bæði félagslegra og einstaklingsbundinna (búsetu, aldurs, kyns, o.fl.) við málnotkun fyrr og síðar; rannsóknir á málnotkun t.d. unglinga í samtölum við ýmsar aðstæður, á svæðisbundnum tilbrigðum í máli og málnotkun og aðrar rannsóknir á breytilegri málbeitingu t.a.m. eftir ólíkum textategundum, undirbúningi, tali eða ritun, viðmælendum, ytra umhverfi, félagslegri merkingu, sjálfsmyndarsköpun o.fl.
Verkefni
Forsendur, virkni og takmarkanir málstefnu og málstýringar
Meginmarkmið rannsóknarsamfellunnar Forsendur, virkni og takmarkanir málstefnu og málstýringar, 2006–2025, er að skoða íslenska málstefnu og málsamfélag í alþjóðlegu samhengi án þess að missa sjónar á hinu einstaka í aðstæðum og málsögu á ólíkum svæðum á mismunandi tímum.
Íslenskt unglingamál: Rannsókn á samskiptaaðferðum í raungögnum
Tilgangur verkefnisins er að rannsaka unglingamál á Íslandi. Meginmarkmiðið er að kortleggja ýmis einkenni íslensks unglingamáls á grundvelli raungagna með því að nálgast það frá ólíkum sjónarhornum og með mismunandi aðferðum.
Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals
Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á mál og málnotkun á 19. öld og þróun hennar eins og hún birtist í blöðum, tímaritum og persónulegum einkabréfum. Hún er samstarfsverkefni fræðimanna við stofnunina, Háskóla Íslands, Uppsalaháskóla og Vrije Universiteit Brussel.
Mikilvægur orðaforði fyrir fjöltyngi og vélþýðingar
Pragmatísk tökuorð á Norðurlöndum
Rafrænt kennsluefni í íslensku sem öðru máli fyrir börn
Markmið verkefnisins er að kortleggja rafrænt kennsluefni í íslensku sem öðru máli sem hentar börnum af erlendum uppruna eða íslenskum börnum sem alast upp erlendis til heimanáms annars vegar og hins vegar að útbúa heimasíðu með ítarlegu yfirliti yfir allt þetta efni.
Samband lýsandi og vísandi málfræðiiðkunar
Gerður hefur verið greinarmunur á því sem kallað hefur verið á íslensku lýsandi málfræði (e. descriptive linguistics) og þeirri málfræðiiðkun sem nefnd hefur verið á íslensku vísandi málfræði, boðandi málfræði eða forskriftarmálfræði (e. prescriptive linguistics). Samband þessara tveggja tegunda kann að reynast mun margslungnara en oft hefur verið látið í veðri vaka og hafa augu sífellt fleiri rannsakenda opnast fyrir því að í því samspili leynast áhugaverð en vanrækt viðfangsefni.