AM 960 4to 1 (hægra megin; kvæðið Ljúflingur) og AM 960 4to 6 (vinstra megin; Grýlukvæði). Gamla bandið er efst til vinstri. Á bláu seðlana voru seinna rituð nöfn hugsanlegra skrifara/sendenda þessara kvera.
AM 960 4to er pappírshandrit frá því um miðja 19. öld með einstaklega fjölbreyttu efni sem kemur mjög við sögu þjóðfræðasöfnunar á Íslandi og tengist meðal annars afmælisbarni ársins, Jóni Sigurðssyni. Hér er á ferðinni safnhandrit sem er sett saman af misþykkum kverum og stökum blöðum í mismunandi broti og af ýmsum uppruna; alls tæplega 200 blöð sem skipt er í 23 hluta. Mestallt er aðsent efni; textauppskriftir og skýrslur, ásamt meðfylgjandi bréfum, sem bárust frá Íslandi til Danmerkur á meðan fornfræðasöfnun Hins konunglega norræna fornfræðafélags stóð sem hæst (um 1845–52).
Í „Boðsbréfi til Íslendinga“, sem birtist í Antiquarisk Tidsskrift (tímariti Fornfræðafélagsins), óskaði félagið eftir fornritum, staðalýsingum og alþýðlegum fornfræðum frá Íslandi. Þar voru fyrst taldar upp fornsögur af sérhverju tagi, en síðar gömul kvæði og ljóð, rímur, fornkvæði, vikivakar, dansleikakvæði, söguljóð, þulur, barnavísur og fleira. Meginefni AM 960 4to er einmitt kveðskapur frá ýmsum tímum, en annað efni er í öðrum safnhandritum félagsins (AM 970 4to, AM 247 8vo, AM 277 8vo o.fl.).
Jón Sigurðsson er einkum þekktur sem stjórnmálamaður, en hann var einnig skjalavörður Fornnorrænnar og íslenskrar deildar í sérstöku fornskjalasafni sem var sett á laggirnar í upphafi fornfræðasöfnunarinnar. Það kom einkum í hlut hans að taka við aðsendum blöðum, flokka þau og birta síðan upplýsingar um þau og upp úr þeim í Antiquarisk Tidsskrift. Hann er því einn af aðalmönnunum á bak við AM 960 4to, en handritið varð einmitt til á fornskjalasafninu.
Eftir lát Jóns Sigurðssonar fluttist AM 960 4to frá safni Fornfræðafélagsins á Árnasafn ásamt allnokkrum öðrum handritum (1883) en 104 árum síðar ferðaðist það til Íslands og er nú varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í Reykjavík. Á Árnasafni í Kaupmannahöfn var gert við handritið (1984); það var bundið í hefti og sett í öskju, en gamla bandið (hörð pappaspjöld með böndum) er nú varðveitt sem fylgihlutur þess.
Fremst í AM 960 4to eru rituð íslensk kvæði frá ýmsum tíma og af ýmsu tagi; Ljúflingur, þrjú andleg kvæði frá 16.–18. öld (m.a. Gimsteinn) og þrjú veraldleg kvæði frá 18.–19. öld, síðar nokkur kvæði um Grýlu, Leppalúða og aðra forneskju frá 17.–18. öld. Fjölbreyttur kveðskapur er í miðju handritinu; þulur og kvæði, m.a. Vitnisburður áttanna eftir Bjarna skálda Jónsson ásamt vísu eftir hann, sléttuböndum aldýrum og Kviða Starkaðar hins gamla (útlegging á hluta 6. og 8. bókar DanasöguSaxa).
Vísa eftir Bjarna skálda Jonson, sléttubönd aldýr, ,,orðrétt eftir hans eiginhandarriti" í AM 960 4to 10.
Hlutur óbundins máls vex í seinni hluta AM 960 4to. Þar eru sögur um álfafólk og örnefni, prestatöl og söfn af blöðum um hjátrú, galdra og rúnir (þar á meðal fjögur bréf um tilbera og kver um ýmsar tegundir rúna) og annar fróðleikur. Þá eru bókalýsingar; yfirlit yfir tvær kvæðabækur frá 18. öld og yfir safn af álfasögum. Handritinu lýkur með dulrænu bréfi.
Svo virðist sem AM 960 4to hafi í fyrstu verið einkum hugsað sem kveðskaparhandrit en hafi svo breyst í allsherjar safnhandrit. Mestallt efni í AM 960 4to er frá 1845–1852, þó allra mest frá 1847. Efni hefur borist frá öllu Íslandi og virðist enginn landshluti skera sig sérstaklega úr í fjölda eða fjölbreytni sendinga. Það er fjölbreyttur hópur sem sendir Fornfræðafélaginu uppskriftir, skýrslur og bréf um alþýðleg fornfræði. Flestir eru prestar og skólanemar (verðandi prestar), þar á meðal áhugaverðir menn eins og Magnús Grímsson, útgefandi íslenskra ævintýra (1852, ásamt Jóni Árnasyni) og skáld, eða Arnljótur Ólafsson sem var lærður á ýmsum sviðum, skáldmæltur og mikill ferðamaður. Nokkrir af virkustu fornfræðasöfnurunum koma úr öðrum stéttum. Guðmundur Sigurðsson í Gaulverjabæ virðist hafa verið vinnumaður alla sína æfi, Ólafur Briem frá Eyjafirði var trésmiður, en Ingimundur Grímsson frá Miðhúsum var hreppstjóri. Að baki AM 960 4to er þverskurður þess hóps sem safnaði fornfræðum um miðja 19. öld.
Efni AM 960 4to hefur oft verið notað og gefið út, þó aldrei í heilu lagi. Ýmislegt úr handritinu er prentað eða nefnt í skýrslum Íslenskudeildar í Antiquarisk Tidsskrift (1846, 1847, 1849 og 1851). Ólafur Davíðsson studdist við það í útgáfu á þulum í Íslenzkum gátum, skemtunum, vikivökum og þulum, en Jón Helgason við útgáfu á Íslenzkum miðaldakvæðum og Íslenzkum fornkvæðum. Þá notaði Jón Samsonarson handritið í nokkrum greinum og í fyrirhugaðri útgáfu sinni á íslenskum þulum, en próförk hennar er varðveitt á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum ásamt athugasemdum hans um þulusafnara, en þær voru mikið notaðar í þessari stuttu lýsingu á AM 960 4to.
Höfundur: Yelena Sesselja Helgadóttir.
Síðast breytt 24. október 2023