Skip to main content

Pistlar

skinnaköst

Í fyrstu útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1963 má finna nafnorðið skinnaköst sem útskýrt er sem ‘vindsveipir, gárur (á sjó)‘. Orðið er að mestu horfið úr íslensku nútímamáli en í seðlasöfnum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er að finna nokkur notkunardæmi. Elsta þekkta dæmið úr ritmáli er að finna í kverinu Ljódmæli Sigurdar Péturssonar sem gefið var út um miðja 19. öld. Yngstu dæmin eru hins vegar frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar og birtast aðallega í ritum tengdum sjómennsku.

 • fór hann ad gánga upp med bakkakorn í nord-vestrinu og gjøra skinnakøst á sjóinn. (Ljódmæli Sigurdar Péturssonar I–II, 1844–1846)
 • Skinnaköstin“, sem allir kannast við, eru eflaust í ætt við skýstróka og stormhvel. (Alþýðleg veðurfræði 1919)
 • Logni fylgja stundum litlir vindsveipir og koma þá dökkir blettir á sjóinn, kallaðir kálfskinn eða skinnaköst; er þá eins og húðum hafi verið fleygt á hann hér og þar. (Íslenskir sjávarhættir 1980–1986)

Dæmin úr ritmáli eru ekki ýkja mörg og öllu ítarlegri upplýsingar er að finna í talmálssafni Orðabókar Háskólans sem nú er varðveitt á stofnuninni. Í safninu er að finna bréf frá 1974 þar sem heimildarmaður af Vestfjörðum segir frá fyrsta og eina skiptinu sem hann heyrði orðið skinnaköst. Bréfinu fylgir einnig blýantsteikning (sjá mynd).

Blýantsteikning. Torfbær merktur "Hamar á Langadalsströnd" við sjó. Á sjónum dökkir flekkir, merktir "Skinnaköst". Fjær, eyja merkt "Borgarey".
Teikning frá 1974 úr talmálssafni Orðabókar Háskólans.
Við erum úti á hlaði, ég og áður nefndur G.K. Það hafði verið logn um daginn og nú var að byrja að hvessa. Þá er það að vindhviðum slær niður á sjóinn hér og hvar, þannig að dökkir blettir myndast á sjónum, með á að giska nokkuð hundruð metra millibili, og er sjórinn lygn á milli þessara bletta, en þeir nokkuð misstórir, sumir sennilega nokkrir metrar í þvermál, aðrir nokkrir tugir metra í þvermál. Ég hafði aldrei séð þetta áður og þótti þetta mjög undarlegt og segi við gamla manninn: „Af hverju er sjórinn svona skrítinn?“ Hann leit út á sjóinn og svarar nokkuð seinlega eins og hans var oft háttur: „Þetta, þetta eru skinnaköst.“ Þetta var skemmtilegt orð, það var nefnilega dálítið líkt því sem geysistórum skinnum hefði verið kastað út á fjörðinn. Ekki stóð þetta fyrirbæri lengi, brátt var sjórinn allur dökkur, og komið hvassviðri, og af austri, en það er áttin okkar þarna á Langadalsströndinni.

Í talmálssafni Orðabókar Háskólans er að finna umsagnir tuttugu og sex heimildarmanna sem allir gefa sambærilega mynd af skinnaköstum. Heimildarmenn koma víða að, flestir frá Vestfjörðum og Snæfellsnesi, en engar umsagnir eru frá Suðaustur- og Austurlandi. Ef til vill var notkun orðsins að mestu bundin við vesturhluta landsins þótt erfitt sé að slá því föstu út frá þeim heimildum sem við höfum í dag. Orðmyndin skinaköst gæti einnig hafa verið til á Vestfjörðum.

Í umsögnum heimildarmanna er skinnaköstum lýst sem blettum á sléttum haffleti.

 • Vindgárar, sem koma í blettum á lognsjó. (Vestfj. 1977)
 • Á sjó. Stærð álíka og húð. (Innri-Njarðvík 1967).
 • [...] ef sjór var sem á spegil að sjá og gárablettir sáust – var kallað skinnaköst (Akureyri 1979)

Umsagnir heimildarmanna gefa einnig til kynna að skinnaköst hafi verið talin undanfarar hvassviðris.

 • Þegar fyrstu vindhviðurnar voru að gára lognstilltan sæ, var talað um, að hann legði skinnaköst. Var þá búist við að hvessti. (V.-Barð. 1966).
 • Vindsveipir er gera sjó dökkan á blettum, oft í byrjun storms. (Hvammstangi 1958)
 • Hann er þegar farinn að leggja skinnaköst, harðar vindhviður, sem sló niður á lygnan hafflötinn hér og þar, venjulega undanfari stórviðris. (V.-Barð. 1967)

Umsagnir heimildarmanna benda einnig til þess að skinnaköst hafi verið notað yfir vindhviður sem komu úr ýmsum áttum.

 • vindköst úr ýmsum áttum, oftast undanfari áttarvindar á rúmsjó. (V.-Ís.)
 • Þegar vindur er svo að sín hviðan er af hverri áttinni þá kallast það skinnaköst. (Vf. 1968)

Í nokkrum umsögnum er talað um samheiti eða önnur orð svipaðrar merkingar. Litlir blettir voru kallaðir kisur eða kattarlappir, gærur voru kraftmeiri en skinnaköst og gráð nefndist það þegar farið var að rjúka úr öllum haffletinum. Einn heimildarmaður nefnir einnig samheitið álfareið.

Eins og nefnt var í upphafi virðist orðið skinnaköst að mestu vera horfið úr íslensku. Umsagnir heimildarmanna í talmálssafni bera þess vitni að orðið hafi þegar verið lítið notað á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Í bréfi dagsettu 1968 frá heimildarmanni af Snæfellsnesi kemur til að mynda fram að orðið sé „að mestu fallið úr notkun“ en að það hafi verið „algengt á Snæfellsnesi“ í ungdæmi bréfritara.

Birt þann 26. september 2023
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Á.Þ. 1941. „Skinnaköst og skinaköst“. Eimreiðin 3. hefti:344.

Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. 1963. Árni Böðvarsson (ritstj.). Reykjavík: Menningarsjóður.

Risamálheildin. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.

Talmálssafn Orðabókar Háskólans.