Í íslensku eru að minnsta kosti þrjú lýsingarorð sem notuð eru til að lýsa þeim sem þarfnast matar. Algengast þeirra er líklega lýsingarorðið svangur en auk þess eru gjarnan notuð orðin hungraður og soltinn. Öll þessi orð eru þekkt úr fornmálinu en í nútímamáli koma tvö þau síðarnefndu þó sjaldnar fyrir ein og sér. Öll orðin geta myndað samsetningar með herðandi forlið, eins og sársvangur, banhungraður og glorsoltinn sem þá lýsa mikilli svengd. Það er athyglisvert að skoða örlítið þessi orð og mismunandi forliði þeirra og hvernig þeir dreifast.
Þegar litið er á orðið svangur er alþekkt að segjast vera sársvangur þegar hungrið er meira en venjulegt eða almennt getur talist. Elstu heimildir um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru frá miðri 19. öld og það verður upp frá því býsna algengt. Enn eldri heimildir eru um orðið glorsvangur í sömu merkingu sem kemur fyrir í rímum af Flóres og Leó frá 17. öld:
hljóta að kúra kalt þá er / í kofunum glorsvöng inni.
Orðið glorsvangur sést öðru hvoru síðan þá en hefur alltaf verið sjaldgæft. Annað orð svipaðrar merkingar er orðið dauðsvangur sem kemur fram á svipuðum tíma og sársvangur án þess þó að slá almennilega í gegn, þótt fáein dæmi um það finnist í heimildum frá 20. og 21. öld. Athyglisvert er að engar heimildir eru um orðið *bansvangur. Bæði glorsvangur og dauðsvangur eru nú fremur lítið notuð þótt þau séu þekkt.
Orðið hungraður er einnig til með herðandi forlið. Algengast er orðið banhungraður en elstu heimild um það er að finna í rímum af Sigurði snarfara frá 18. öld:
ban húngradur hrafn ófeite / hanns um maler kroppar þá.
Nokkru eldra er elsta dæmi um orðið sárhungraður. Orðið glorhungraður er einnig vel þekkt og kemur fyrst fram um miðja 19. öld. Það virðist fljótt hafa náð talsverðum vinsældum og útbreiðslu og er enn notað í daglegu máli. Orðin sárhungraður og dauðhungraður eru mun sjaldgæfari þótt þau séu þekkt. Sárhungraður er meira að segja býsna gamalt, en heimildir eru um það frá 17. öld. Orðið dauðhungraður kemur fyrst fyrir í ritum Fjölnismanna á 19. öld og sést öðru hvoru fram eftir 20. öld.
Orðið soltinn er lýsingarháttur af sögninni svelta og merkingin því væntanlega upprunalega eitthvað í líkingu við ‘sá sem ekki hefur fengið mat’. Merkingin liggur ekki langt frá merkingu orðsins svangur, þar sem gera má ráð fyrir því að sá sem sveltur sé svangur. Algengasti forliðurinn með þessu orði er glor-, þ.e. glorsoltinn en fyrstu heimildir um orðið í Ritmálssafninu eru þó ekki fyrr en frá 20. öld, þótt líklegast sé það eitthvað eldra. Elsta samsetningin er bansoltinn frá 17. öld en virðist ekki hafa náð mikilli útbreiðslu. Orðið sársoltinn kemur fram á 18. öld og er enn nokkuð þekkt og notað en ekki jafnmikið og glorsoltinn. Orðið dauðsoltinn þekkist frá 19. öld en hefur ekki náð flugi þótt það komi fram í heimildum nánast óslitið síðan þá.
Lýsingarorðin geta því fengið allnokkra herðandi forliði. Af þeim sem hér hefur verið minnst á eru forliðirnir sár-, ban- og dauð- frekar auðskiljanlegir en sérkennilegri er glor- sem vísar í gulgráan litarhátt og þekkist ekki sem herðandi forliður nema með lýsingarorðum sem tjá svengd (sjá svar Guðrúnar Kvaran á Vísindavef Háskóla Íslands). Nafnorðið glor ‘... bleg, gusten Farve (i Hungersnød)’ ásamt samsetta lýsingarorðinu glorsvangur koma fyrir í orðabók Björns Halldórssonar (d. 1794) en aðrar heimildir um þetta nafnorð eru fáar.
Eins og sjá má af ofangreindu hafa því verið ýmsir möguleikar til að herða merkingu orðanna svangur, hungraður og soltinn gegnum tíðina. Þróunin hefur svo verið í þá átt að einn eða tveir forliðir verða algengastir, en mismunandi milli orða hvaða liðir það eru. Í dag er sá sem er mjög svangur oftast sársvangur, mjög hungraður er venjulega banhungraður eða glorhungraður og mjög soltinn er yfirleitt glorsoltinn. Aðrar mögulegar samsetningar auk herðandi forliðarins dauð- koma sjaldan eða aldrei fyrir.
Síðast breytt 24. október 2023