Skip to main content

Pistlar

innviðir

Í samfélagsumræðu er títt minnst á ýmiss konar innviði og hefur þetta orð sést æ oftar síðustu ár. Oft er talað um innviðauppbyggingu, eins og t.d. Borgarlínu eða jarðgangagerð. Nýverið var innviðaráðuneyti sett á laggirnar og á heimasíðu téðs ráðuneytis segir: „Verkefni innviðaráðuneytisins ná til fjölmargra sviða þjóðfélagsins og varða meðal annars samgöngur, sveitarstjórnar- og byggðamál, grunnskrár, húsnæðis- og mannvirkjamál og skipulagsmál.” Það er því ljóst að mjög margt sem snýr að skipulagi samfélagsins fellur undir innviði eins og orðið er oftast notað í dag.

Í Hagfræðiorðasafni eru innviðir t.d. skilgreindir sem annars vegar „Grundvallarskipulag kerfis, stofnunar o.þ.h.“ Og hins vegar „Atvinnu- og þjónustumannvirki sem mynda undirstöðu efnahagslífs í hverju landi, s.s. orkuveitur, fjarskipta- og samgöngumannvirki, skólar, sjúkrahús, o.þ.h.“ Þarna eru því a.m.k. tvær merkingar sem eru þó skyldar og báðar frekar nýlegar. Orðið samsvarar í þessu sambandi alþjóðlega orðinu infrastrúktúr sem er notað í ensku og mörgum öðrum nágrannamálum íslensku og á uppruna sinn í franska orðinu infrastructure.

" "
Ljósm.: Timusic Photographs, Unsplash

En þessi fremur víðtæka merking orðsins innviðir er tiltölulega nýtilkomin þótt orðið sjálft eigi sér langa sögu. Orðið er samsett úr atviksorðinu inn og nafnorðinu viðir eða viður og merking þess er bókstafleg í elstu heimildum. Upphafleg merking orðsins er fremur þröng eins og sést þegar dæmi eru skoðuð í fornmálsorðabókinni ONP. Elsta dæmið er úr norsku hómilíubókinni sem er talin vera rituð í kringum árið 1200:

 • svo sem innviðir renna allt skipið, svo renna góðverk hugskot manns.

Á þessu dæmi og öðrum frá 13. og 14. öld sést að orðið á eingöngu við um innviði skipa, þ.e. tréverk sem notað er við skipasmíði, sbr. Rómverja sögu frá fyrri hluta 14. aldar:

 • Síðan lét Júlíus gjöra húðskip, en hann lét höggva upp aldingarða er stóðu undir berginu og hafði það til innviða í húðskipin.

Þessi þrönga notkun orðsins um innviði skipa á við um þau dæmi sem þekkjast úr miðaldatextum og eru skráð í fornmálsorðabókinni ONP. Merkingin virðist síðan hafa víkkað út, þótt innviðir hafi lengst af einungis átt við um tré eða viðarsmíð. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans má til að mynda finna dæmi úr biskupsskjalasafni frá 1677 þar sem lýst er ástandi kirkjubyggingar:

 • kirkjan að ytri súð og innviðum mjög lasleg og ágengileg.

Í fleiri dæmum í Ritmálssafninu frá 17. öld og síðar vísar orðið til innviða húsa jafnt sem skipa. Síðari alda heimildir sýna frekari þróun orðsins. Yfirfærð merking er þekkt a.m.k. frá seinni hluta 18. aldar. Í riti Hins íslenska lærdómslistafélags frá 1790 segir í umfjöllun um „orsakir til sjúkdóma“:

 • … kalla menn innviði höfuðs og brjósts vicera.

Hér virðist innviðir vísa til líffæra, m.ö.o. innviðir takmarkast ekki við timbur.

Á 19. öld virðist merking orðsins eiga við um margs konar „innviði“. Í Ferðabók Tómasar Sæmundssonar frá miðri 19. öld er talað um:

 • Íslands í innviðum sínum af eldinum holaða jörð.

Matthías Jochumsson ritar í einni leikritaþýðingu sinn frá síðari hluta 19. aldar:

 • … færi menn að útreikna alla innviðu hans ágætis.

Hér er því talað um annars vegar innviði jarðarinnar og hins vegar innviði manneskju.

Merkingin víkkar enn þegar kemur fram á 20. öld og rætt er um tiltekið „mál og „innviðu þess“ (Saga Reykjavíkurskóla 1931) en einnig um innviði skáldverka eins og segir í bókadómi frá 1929:

 • Sögurnar eru ekki svo innviðamiklar, að þeim fari vel þungur og íburðarmikill búningur.

Á fyrri hluta 20. aldar virðist samhliða gömlu merkingunni svo verða til merkingin sem algeng er í dag þar sem innviðir vísa til skipulags. Í Ársriti Ræktunarfélags Norðurlands árið 1917 stendur:

 • Heimilin, þessir innviðir þjóðfjelagsins þurfa að eflast að hreinlæti, háttprýði og öðrum góðháttum.

Nokkrum árum síðar er ritað í sósíalíska tímaritinu Mjölni (1930):

 • Ísland er nú sem óðast að sogast inn í heimskreppu þá sem nú ríður á innviðum auðvaldsskipulagsins um heim allan.

Eftir miðja 20. öld er orðið einnig notað um mannvirki á líkan hátt og nú er algengt, t.d. í tímaritinu Iðnaðarmál frá 1966 þar sem segir:

 • væri því ekki að ófyrirsynju að innviðir þeirrar iðnaðaruppbyggingar, sem hér er að finna, yrðu styrktir.

Samhliða öllum þessu nýju merkingum og blæbrigðum helst upphaflega merkingin þar sem innviðir vísa til innréttinga (úr tré) í skipum og öðrum íverustöðum.

" "
Ljósm.: Leo Fosdal, Unsplash

Í Íslenskri nútímamálsorðabók sem kappkostar að gefa sem besta lýsingu á orðaforða samtímaíslensku er orðið skilgreint á þennan hátt:

innviðir no kk ft
orðhlutar: inn-viðir
 1. burðarviðir innan húss eða skips
 2. innra umhverfi félags, fyrirtækis eða stofnunar
 3. helstu þættir sem stuðla að virkni samfélags, s.s. samgöngumannvirki og orkukerfi

Orðabókin sýnir upprunalegu merkinguna fyrst og svo nýrri yfirfærðar merkingar. Ýmis merkingartilbrigði sem hafa verið reifuð hér og heimildir eru um eru ekki talin upp í orðabókinni. Það á sér væntanlega þær skýringar að ýmsar eldri afleiddar merkingar þessa orðs virðast að mestu horfnar í nútímamáli, svo sem merking orðsins sem ’innyfli/iður’ eða ‘innihald/formgerð’ og sjá má í sumum þeim dæmum sem hafa verið tiltekin hér.

Þróun orðsins innviðir sýnir glögglega hvernig merking breytist í tímans rás og hvernig nýjar yfirfærðar merkingar verða til og fjara ýmist út, eða verða að aðalmerkingu meðan upprunaleg og bókstafleg merking verður smám saman minna áberandi.

Birt þann 10. október 2022
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Hagfræðiorðasafn. Íslenskt-enskt, enskt-íslenskt orðasafn um hagfræði, viðskiptafræði og skyldar greinar. 2000. Orðanefnd Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga tók saman. Ritstj. Brynhildur Benediktsdóttir, Jónína Margrét Guðnadóttir og Kirstín Flygenring. (Rit Íslenskrar málnefndar 12.) Íslensk málnefnd, Reykjavík.

Innviðaráðuneytið

Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík.

ONP = Ordbog over det norrøne prosasprog / A Dictionary of Old Norse Prose. Arnamagnæanske kommission, Kaupmannahöfn.

Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík.

Tímarit.is. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Reykjavík.