Nafnorðið endemi (einnig í myndinni endimi) vísar til einhvers sem er dæmalaust, óheyrilegt eða fáránlegt. Það er ekki síst notað í föstum orðasamböndum eins og (eitthvað er) með endemum ‘(eitthvað er) með fádæmum, fráleitt’ og (vera) fræg(ur) að endemum ‘(vera) þekkt(ur) fyrir eitthvað fráleitt eða hneykslanlegt’ svo og í upphrópuninni heyr á endemi! (sbr. Íslenskt orðanet og Íslenska nútímamálsorðabók). Dæmi um öll þessi sambönd fá finna í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans (ROH) og víðar.
- Heyr Endime. (ROH; 17. öld)
- O, heyr á endemi, b[…] þöngulhausinn þinn. (ROH; 19. öld)
- Verðlagning á bílum hér á landi er með slíkum endemum, að fáar þjóðir búa við slíkt ástand. (ROH; 20. öld)
- en samt hafði ég hlotið ljótar nafngiftir og orðið frægur að endemum. (ROH; 20. öld)
- Við vorum sem sé orðnir frægir að endemum um allan Hafnarfjörð. (21. öld)
Eignarfallsmyndin endemis er einnig notuð til áherslu með nafnorðum í merkingunni ‘óskaplegur, gífurlegur’. Margvísleg dæmi má finna um slíka notkun:
- „En sá endemis sóðaskapur“, nöldraði Steinn. (ROH; 20. öld)
- ef manni tekst svo að toga út úr þér þumlungslanga setningu þá er það alltaf einhvör bölvuð endemis vitleysa. (ROH; 20. öld)
- Ég get sagt hér að mér var misboðið að heyra þessa endemis vitleysu. (21. öld)
Þessi mynd er einnig algeng sem fyrri liður samsettra nafnorða með sama hlutverk, það er að segja sem áhersluliður: endemisbull, endemisvitleysa, endemisósvífni, endemisvandræði og þannig mætti áfram telja.
Í Íslenskri orðabók (2002) er orðið talið hafa tvær merkingar — auk þeirrar almennu merkingar sem dæmi hafi verið sýnd um er það líka sagt merkja ‘for, saur, skarn; skömm’. Vissulega má sjá ýmis dæmi um þessa merkingu allt fram á 20. öld í ROH en í textasöfnum og málheildum sem geyma einkum verk frá þessari öld og lokum þeirrar tuttugustu kemur hún lítið sem ekki fyrir. Aftur á móti kann áhrifa hennar að gæta í því að þegar endemis er notað til áherslu, annaðhvort sem sérstakt orð eða sem fyrri hluti samsetningar, er merking liðarins eða samsetta orðsins langoftast neikvæð. Stundum minnir notkunin á endemis(-) jafnvel á notkun blótsyrða og í Íslenskri samheitaorðabók (2012) er orðið bannsettur t.d. gefið sem samheiti við endemis-.
Mynd orðsins, endemi eða endimi, er óræð en mun vera gömul ummyndun úr orðinu eindæmi. Orðið kom fyrir í þessum myndum þegar í fornu máli. Um það vitna dæmi í fornmálsorðabókinni í Kaupmannahöfn (ONP) sem sýna áþekka notkun orðsins og þá sem nú tíðkast (undir uppflettiorðinu eindǿmi, einkum 4. lið).
- þetta eru endimi mikil, enn er heill bátr ok svá þeir sjálfir. (Örvar-Odds saga)
- Heyr a endemi, at ek munda Sveini fee til sætta gefa. (Orkneyinga saga)
Það er forvitnilegt að bera saman merkingu og notkun orðanna endemi og eindæmi en það síðarnefnda er talið hafa legið því fyrra til grundvallar í öndverðu. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefin tvö orðasambönd undir uppflettiorðinu eindæmi: (eitthvað er) með eindæmum ‘mjög, sérlega’ og (gera eitthvað) upp á sitt eindæmi ‘(gera eitthvað) að eigin frumkvæði, án samráðs við aðra’. Auk þess er eignarfall orðsins í fleirtölu, eindæma, bæði notað með nafnorðum og sem fyrri liður samsettra orða til áherslu líkt og eignarfallsmyndin endemis. Það vekur athygli í samanburðinum að þegar þessi orð standa í sama samhengi er merkingin gjarnan gagnstæð ‒ það er greinileg tilhneiging til að nota endemi frekar í neikvæðri merkingu en eindæmi aftur á móti oftar í jákvæðri. Þannig er algengast að á eftir endemis standi nafnorð eins og vitleysa, bull, rugl, þvæla, della og kjaftæði en með eindæma standa t.d. nafnorðin veðurblíða, góðæri, æðruleysi, dugnaður, viðnámsþróttur og hugrekki þótt þessi dreifing sé ekki einhlít. Sömuleiðis stendur orðasambandið með endemum á undan lýsingarorðum á borð við andlaus, auvirðilegur, dónalegur, erfiður og fáránlegur þótt orð með jákvæðari merkingu komi einnig fyrir í því sambandi en aftur á móti eru lýsingarorðin góður, skemmtilegur, fallegur, gestrisinn, duglegur og jákvæður meðal þeirra sem oftast standa á eftir sambandinu með eindæmum þótt vissulega komi lýsingarorð með aðra merkingu einnig fyrir í því samhengi.
Síðast breytt 24. október 2023