Skip to main content

Pistlar

leikfimi og fimleikur

Hópur grunnskólabarna á Siglufirði stundar leikfimi í íþróttasal.
Ljósm.: Steingrímur Kristinsson / Ljósmyndasafn Siglufjarðar

Eins og sjá má í Íslenskri orðabók merkir nafnorðið leikfimi „líkamsæfingar ætlaðar til að efla alhliða þroska líkamans, m.a. námsgrein við skóla“. Samkvæmt fornmálsorðabókinni ONP eru engin notkunardæmi til um orðið í forníslensku en hins vegar er þar að finna allmörg dæmi um fimleikur í merkingunni ‚hreyfifærni, líkamslistir‘.

  • hafði engi maðr við Kjartani hvárki afl né fimleik (Laxdæla)
  • Síðan leggz hann út aptr á sund ok leikr þá marga fimleika á sundi (Örvar-Odds saga)

Elsta skráða dæmið um leikfimi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er sótt í þjóðsögur Jóns Árnasonar frá miðri nítjándu öld.

  • þókti Eyvindi margt vel gefið, blíðlyndi […] og leikfimi, svo að hann var sundmaður góður og glímumaður. (1862–1864)

Í dæminu er orðið leikfimi notað til að lýsa mannkostum, þ.e. það vísar til þess að Eyvindur hafi haft góða stjórn á líkamshreyfingum. Þetta er í samræmi við þá skilgreiningu sem birtist í tímaritinu Andvara frá 1881: „líkamshreifingar og snotur limaburður“. Í sama tímariti er leikfimi ekki aðeins notað um limaburð heldur einnig fingrafimi og hæfileika til að leika á hljóðfæri.

  • [þ]egar brúðurin hafði sýnt leikfimi sína í dansinum, var innan skamms gengið til kirkju, og fylgdi því engin viðhöfn önnur en sú, að hljóðfærisleikarinn sýndi leikfimi sína alla leið að sálarhliðinu og ljek þar þangað til allur hópurinn var kominn í kirkju.

Í öðrum dæmum virðist orðið merkja einskonar hreyfingu eða íþrótt sem stundaðar eru til heilsubótar eins og í eftirfarandi dæmum sem sótt eru í íslensk dagblöð og tímarit.

  • Á hverjum degi gengur hann spottakorn og temur sjer leikfimi 2 klukkustundir á dag. (1883)
  • Glíma, fangbrögð, knattleikar og önnur leikfimi. (1879)
  • [s]ýndu bæði konur og karlar leikfimi undir stjórn Björns Jakobssonar. (1921)
Helgi Sveinsson leikfimikennari á Siglufirði stjórnar útileikfimi drengja, 1945 eða 1946. Fjöll í baksýn.
Ljósm.: Kristfinnur Guðjónsson / Ljósmyndasafn Siglufjarðar

Þegar verið var að undirbúa stofnun grunnskólans hér á landi í lok 19. aldar komu orðin fimleikur og leikfimi fljótt fram sem heiti námsgreinar sem öll skólabörn skyldu leggja stund á.

  • veita tilsögn í þessum greinum: íslenskri málfræði og réttritun, því að lesa skrift, í föðurlandssögu og landafræði, einnig í dönsku og fimleik. (1860)
  • [skólan]efndin hefir nú breytt orðinu „fimleika“ í „leikfimi“, vegna þess að orðið „leikfimi“ er orðið fast í málinu í sömu þýðingu sem Gymnastik. (1877)
  • [a]uk þriggja annara kennslugreina: leikfimis, teiknunar skriptar. (1883)
  • að kennslutímar í öllum námsgreinum til samans, að leikfimi einni undanskildri, verði aldrei fleiri en 36 á viku hverri. (1877)
  • af kennslustundunum á jafnan að hafa eina á dag til leikfimis, handavinnu eða söngs. (1899)

Eins og sjá má á dæmunum hér að framan voru orðin leikfimi og fimleikar notuð jöfnum höndum yfir námsgreinina áður en leikfimi varð allsráðandi í skólastarfi. Á síðari árum hefur fleirtölumyndin fimleikar svo fest sig í sessi sem heiti yfir keppnisgreinina sem á ensku er kölluð gymnastics. Eftirfarandi skilgreiningu er að finna í Alfræði Menningarsjóðs.

  • fimleikar, áhaldafimleikar (e. gymnastics, þ. Turnen, Geräteturnen), margbrotin íþróttagrein sem flokkast í æfingar á 8 áhöldum. (1976)

Í nokkra áratugi var leikfimi fastur liður á stundatöflu íslenskra grunnskólabarna. Undanfarin ár hefur þó orðið sú breyting á að námsgreinin heitir nú íþróttir en ekki leikfimi. Í Aðalnámskrá grunnskóla frá 2011, þar sem fjallað er um skólaíþróttir, kemur orðið leikfimi fyrir aðeins einu sinni og þá í merkingunni ‚hreyfifærni‘.

  • Því er einnig lögð áhersla á leiknimiðuð markmið af ýmsum toga svo sem í leikfimi, boltafærni, köstum eða stökkum. (Aðalnámskrá Grunnskóla 2011)
Regína Guðlaugsdóttir leikfimikennari stjórnar fimleikastúlkum úr Gagnfræðaskólanum.
Ljósm.: Steingrímur Kristinsson / Ljósmyndasafn Siglufjarðar

Vegna þessara breytinga á orðanotkun grunnskóla er orðið leikfimi ekki eins mikið notað í dag og það var áður. Orðið leikfimi vekur einnig önnur hugrenningatengsl meðal yngri kynslóða og þeirra sem eldri eru og ef til vill kannast ömmur og afar skólabarna við misskilning og árekstra þegar orðið leikfimi er notað yfir íþróttir. Hugsanlega tengist þessi nýja orðanotkun breytingum í viðhorfi samfélagsins til líkamsþjálfunar. Hugtakið leikfimi tengist liðleika og hreyfingu. Í leikfimi er ekki hægt að keppa því henni fylgja engar leikreglur eða lokamarkmið önnur en að bæta heilsuna, samanber sundleikfimi og morgunleikfimi í útvarpi. íþróttir tengjast hins vegar atriðum eins og tímatöku eða því að skora mörk og sigra andstæðinginn. Með því að breyta leikfimi í íþróttir í skólastarfi er því ef til vill verið að leggja meiri áherslu á mælingar og keppnisanda. Svipaða þróun má greina í notkun annarra orða á sama merkingarsviði. Á níunda áratugnum var vinsælt að trimma, skokka eða jafnvel jogga. Samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók vísa öll þessi orð í létt og frjálslegt hlaup. Ef notkun þessara orða í rituðum textum er skoðuð kemur í ljós að bæði trimma og jogga eru mjög lítið notuð í dag. Þess í stað talar fólk um að hlaupa, sem samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók merkir ‚fara hratt áfram á fótunum‘. Í hlaupi er keppt og algengt er að taka niður tímann. Þessir straumar í þróun orðaforðans sýna að sterk tengsl eru á milli  tíðaranda og orðnotkunar. Breytt viðhorf kalla á önnur orð.

Birt þann 13. febrúar 2023
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla. 2011. Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Íslensk orðabók. 2004. Mörður Árnason (ritstj.). Reykjavík: Edda.

Íslensk nútímamálsorðabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.).

ONP = Ordbog over det norrøne prosasprog. Kaupmannahafnarháskóli.

Risamálheildin. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Tímarit.is. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.