Skip to main content

Pistlar

sprakki

Ein af útgáfubókum ársins 2021 hefur titilinn Sprakkar. Þótt form orðsins sé kunnuglegt — það rímar t.d. við orðmyndir eins og krakkarstakkarþakkar og pakkar — gæti það komið mörgum málnotendum ókunnuglega fyrir sjónir enda hafa höfundur bókarinnar og útgefendur séð ástæðu til að útskýra að þetta sé fleirtala af gömlu íslensku orði, sprakki, sem merki ‘röskleikakona, kvenskörungur’. Fjölmargar íslenskar orðabækur staðfesta tilvist þess í málinu frá gamalli tíð og finna má allmörg dæmi um orðið í söfnum Orðabókar Háskólans. Heimildirnar sýna þó að notkunarsvið orðsins hefur verið takmarkað og þeim ber heldur ekki að öllu leyti saman um merkinguna.

Í norrænu fornmálsorðabókinni (ONP) er orðið rakið til Snorra-Eddu þar sem það er sagt kvenheiti: Kona heiter ... spracki. Aðrar fornmálsorðabækur, s.s. bók Fritzners (1973 [1867]) og bók Richards Cleasbys og Guðbrands Vigfússonar (1874), sýna merkinguna ‘kona’ og þar kemur yfirleitt fram að orðið sé bundið við kveðskap. Það er enda bæði í Lexicon Poëticum Sveinbjarnar Egilssonar (1860) og rímnaorðabók Finns Jónssonar (1926–28), á báðum stöðum skýrt ‘kona’. Orðið er einnig í 17. aldar orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík með sömu merkingu og rakið til Snorra-Eddu. Dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans (ROH), þau elstu úr rímum frá 16. öld og það yngsta úr Kalevalaþýðingu Karls Ísfeld frá miðri 20. öld, eru líka öll úr bundnu máli.

  • Friggju hygginn fái þrá, / frakkur sprakka spennir. (Olgeirs rímur danska; 17. öld)
  • Þángað tíðum Fedór flaug og færði blómin / hollum sprakka’ í hrúgum saman; / henni jók það yndi’ og gaman. (Rímur af Fedor og Efemíu; 19. öld)
  • Feginn gyldi’ eg koss í kaup / himnarjóðum sprakka. (Kristján Jónsson; 19. öld)

Þau tiltölulega fáu dæmi sem finnast um orðið á Tímarit.is eru líka fyrst og fremst úr kveðskap, sum þau sömu og í ritmálssafninu. Þau yngstu eru úr vísna- og kvæðaþáttum í blöðunum, þar á meðal þetta úr Vísnahorni blaðsins Skessuhorn frá 2007:

Gvendur á Hóli góður að skóla hesta.
Nankinsjakkanjótur sá
nýtum sprakka sefur hjá.

Eftir því sem best verður séð merkir orðið í þessum dæmum einfaldlega ‘kona’ og ekkert óyggjandi dæmi er um að það vísi sérstaklega til konu eða kvenna sem sýna skörungsskap eða röskleika.

Hvaðan sprettur þá merkingin ‘röskleikakona, kvenskörungur’ sem birtist í yngri orðabókum? Er hún síðari tíma nýjung?

Elsta vísbendingin um þá merkingu virðist vera í orðabók Björns Halldórssonar (1814/1992) sem samin var seint á 17. öld. Björn skýrir orðið sprakki með latneska orðinu virago, sem þýðir ‘kvenskörungur’ samkvæmt latnesk-íslensku orðabókinni Nucleus Latinitatis (1994) frá 1738, og Rask, sem gekk frá orðabók Björns til útgáfu, bætti við dönsku skýringunni ‘en heltinde’, þ.e. ‘hetja’. Í orðabókargreininni er ekki vísað til neinnar heimildar og engin dæmi birt sem styðja merkingarskýringuna.

Nafnorðið sprakki í orðabók Björns Halldórssonar (1814).

Vitað er að Björn sótti efnivið í orðabók sína að verulegu leyti í samtímamál sitt en hafi orðið sprakki verið notað í þessari merkingu á hans dögum þá sér þess a.m.k. ekki stað í tiltækum ritheimildum öðrum en orðabókinni sjálfri. Hvað sem öðru líður fara skýringar orðsins í seinni tíma orðabókum að bera svip af merkingarskýringunni í orðabók Björns. Í Oldnordisk ordbog (1863) er kveðskaparorðið sprakki skýrt sem ‘Benævnelse paa en heltemodig Kvinde’ án þess að vísað sé til annarra textaheimilda en í eldri fornmálsorðabókum. Í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals (1920–24), sem var einkum ætlað að lýsa samtímamálinu á þeim tíma, er sprakki merkt sem kveðskaparorð og merkingarskýringin er ‘(heltemodig) Kvinde’. Orðabók Sigfúsar hefur haft mikil áhrif á yngri orðabókarverk, ekki síst Íslenska orðabók sem kom fyrst út 1963. Þar var sprakki skýrt sem ‘hetja (einkum um kvenmann)’ en í næstu útgáfu, 1983, birtist skýringin sem enn er viðhöfð, ‘röskleikakona, kvenskörungur’. Í Íslenskri orðsifjabók (1989) er svipuð skýring, ‘dugnaðarkona, kvenskörungur’.

Vegna skorts á textaheimildum eða öðrum frumheimildum eru breyttar orðabókaskýringar á merkingu orðsins sprakki hálfgerð ráðgáta. Auk þess er orðliðurinn sprakk- fátíður í málinu. Í ROH eru dæmi um þrjú orð með -sprakki að síðari lið: ektasprakki, vergangssprakki og vildissprakki. Öll eru þau stakdæmi, öll úr kveðskap og eftir því sem best verður séð vísar síðari liðurinn í þeim einfaldlega til konu.

Nafnorðið sprakki og lýsingarorðið sprakkur í orðabók Sigfúsar Blöndals (1920‒24).

Einnig birtist lýsingarorðið sprakkur fyrst í orðabók Sigfúsar Blöndals og er skýrt með danska jafnheitinu rask, þ.e.a.s. ‘röskur; hress’, og þar er því sami merkingarþáttur og kemur fram í yngri skýringum á nafnorðinu sprakki. Því miður eru engar heimildartilvísanir eða aðrar vísbendingar um það hvaðan upplýsingar um lýsingarorðið eru fengnar en það hefur ratað inn í yngri orðabækur, líklega úr orðabók Sigfúsar eins og svo margt annað. Orðið hefur ekki fundist í söfnum Orðabókar Háskólans nema í seðlasafni frá Þórbergi Þórðarsyni og á seðli úr safni Blöndalsorðabókar. Svo mikil líkindi eru með seðlunum að þar hljóta að vera bein tengsl á milli enda vann Þórbergur að gerð orðabókarinnar og lagði til hennar efni úr sínu safni.

"sprakkur" á seðli Þórbergs Þórðarsonar

Lýsingarorðið sprakkur á seðli Þórbergs Þórðarsonar. 

Lýsingarorðið sprakkur á seðli úr safni til orðabókar Sigfúsar Blöndals.

Á báðum seðlunum er vísað í tvö vísuorð þar sem þolfallsmyndin sprakkan kemur fyrir og heimildarskammstöfun er sú sama. Ekki hefur tekist að rekja tilvísunina en þarna gæti verið rótin að uppflettiorðinu sprakkur í orðabók Sigfúsar, a.m.k. hafa önnur dæmi um notkun orðsins ekki fundist.

Þá er ótalið orðið forsprakki ‘upphafsmaður, leiðtogi’ sem er eina orðið með liðnum -sprakki sem er verulega útbreitt og algengt í daglegu máli. Aftur á móti er óvíst að það hafi nokkur bein tengsl við nafnorðið sprakki. Ef marka má ROH kemur orðið fyrst fyrir um miðja 18. öld og frá upphafi er það notað um karla jafnt sem konur. Í Íslenskri orðsifjabók (1989) kemur fram að forsprakki kunni að vera sprottið af eldra orði, forsprakari ‘talsmaður, formælandi’, sem líklega hefur verið tökuorð, þótt síðari tíma tenging við sprakki gæti hafa haft áhrif á mynd þess.

Ýmislegt er því á huldu um sögu og merkingarþróun nafnorðsins sprakki vegna skorts á heimildum sem styðja orðabókaskýringarnar. En hvað sem því líður er þetta hið ágætasta orð og ekkert sem mælir gegn því að nota það um kvenskörunga í nútímamáli. Það er t.d. ekki óþekkt að orðum úr fornmáli sé gefið nýtt líf með því að taka þau upp í nútímamáli sem eins konar nýyrði eða tökuorð eins og orðin sími og skjár bera vitni um.

Birt þann 6. desember 2021
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans. (Sjá líka: málið.is.)
  • Björn Halldórsson. 1814. Lexicon Islandico-Latino-Danicum. Útg.: Rasmus K. Rask. Kaupmannahöfn.
  • Björn Halldórsson. 1992. Orðabók. Íslensk-latnesk-dönsk. Ný útgáfa. Útg.: Jón Aðalsteinn Jónsson. Orðfræðirit fyrri alda 2. Reykjavík: Orðabók Háskólans.
  • Cleasby, Richard, og Guðbrandur Vigfússon. 1874. An Icelandic-English Dictionary. Oxford: The Clarendon Press.
  • Eiríkur Jónsson. 1863. Oldnordisk ordbog. Kaupmannahöfn.
  • Eliza Reid. 2021. Sprakkar. Kvenskörungar Íslands og hvernig þær leitast við að breyta heiminum. Reykjavík: JPV. (Sjá: https://www.forlagid.is/vara/sprakkar/.)
  • Finnur Jónsson. 1926–28. Ordbog til rímur. Kaupmannahöfn.
  • Fritzner, Johan. 1973 [1867]. Ordbog over Det gamle norske Sprog. Osló/Bergen/Tromsø: Universitetsforlaget.
  • Íslensk orðabók. 1963/1983/2002. Ritstj. 1. og 2. útg.: Árni Böðvarsson. Ritstj. 3. útg.: Mörður Árnason. Reykjavík: Menningarsjóður (1. og 2. útg.)/Edda (3. útg.).
  • Nucleus Latinitatis. 1994. Ný útgáfa. Útg.: Guðrún Kvaran og Friðrik Magnússon. Orðfræðirit fyrri alda 3. Reykjavík: Orðabók Háskólans.
  • ONP: Ordbog over det norrøne prosasprog. https://onp.ku.dk/onp/onp.php. Kaupmannahöfn: Kaupmannahafnarháskóli.
  • ROH = Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. https://ritmalssafn.arnastofnun.is. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  • Sigfús Blöndal. 1920–24. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík. (Rafræn útgáfa 2020: https://blondal.arnastofnun.is/. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.)
  • Sveinbjörn Egilsson. 1860. Lexicon poëticum. Kaupmannahöfn.
  • Tímarit.is. https://timarit.is/. Reykjavík: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.