Skip to main content

Pistlar

stakkur

Svart/hvít mynd af manni. Undir myndinni stendur „Ljósar buxur, lífleg peysa og þunnur stakkur".“

Í seðlasöfnum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (áður Orðabókar Háskólans) má finna fjölmörg dæmi um nafnorðið stakkur. Orðið á sér mjög langa sögu í málinu og getur haft ýmsar merkingar (sjá Orðabók Sigfúsar Blöndals). Í þessum pistli verður einungis fjallað um notkun orðsins í nútímamáli þar sem það merkir eins konar yfirhöfn.

Samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók er stakkur ‚síð og (jafn)víð yfirhöfn, yfirleitt heil að framan (t.d. sjóstakkur)‘. Einnig kemur orðið fyrir í algengum orðatiltækjum eins og sníða sér stakk eftir vexti ‚taka mið af aðstæðum‘ og vera í stakk búinn til að <sinna starfinu> ‚vera fær um að rækja starfið‘.

Á Akureyri og ef til vill víðar á Norðurlandi er orðið stakkur hins vegar notað í eilítið annarri merkingu sem ekki er að finna í orðabókum. Eftirfarandi skilgreiningar bárust frá Akureyringum sem fæddir eru og uppaldir í bænum:

  • Stakkur er yfirhöfn – léttari en úlpa, t.d. íþróttastakkur eða létt sumaryfirhöfn.
  • Ég nota orðið stakkur og myndi ég segja að það væri eitthvað sem er á milli þess að vera úlpa og jakki.
  • Stakkur er frekar stuttur, rétt niður fyrir mitti en samt frekar hlý flík.
  • Í mínum huga er stakkur yfirhöfn. Hann er ekki síður eins og kápa heldur í  mittissídd, þynnri en úlpa, meira svona þunnur eins og sumarjakki en samt ekki endilega sumarjakki. Hann er renndur, ekki hnepptur.
  • Léttur sumarjakki. Ég held ég noti það frekar um karlmannsflík, vön því að pabbi fari í stakkinn.

Af svörunum má draga þá ályktun að meðal Akureyringa merkir stakkur ‚mittislöng og frekar létt vetrar- eða sumaryfirhöfn sem er opin að framan og með rennilás‘. Svipaðar flíkur eru á Tímarit.is kallaðar t.d. jakkar, blússur, vindjakkar, stormjakkar, vindblússur og stormblússur.

Blaðaúrklippa: Tapað. Grár stakkur var tekinn í misgripum á diskótekinu á Freyvangi laugardagskvöldið 10/12. Vinsamlegast hringið í síma 24939.

Heimildarmennirnir sem talað var við á Akureyri könnuðust allir við að nota orðið stakkur. Sumir töldu þó að notkunin hafi verið meiri áður fyrr og að orðið væri kannski ekki hluti af virkum orðaforða yngri kynslóða.

stakkur er dæmi um orð sem er þekkt úr almennu máli en hefur hlotið staðbundna merkingu a.m.k. á Akureyri. Fjölmörg dæmi eru um slík orð víða um land og má þar nefna orð á borð við drusla ‚borðtuska‘ brók ‚nærbuxur‘ og strengir ‚harðsperrur‘.

Orð með staðbundna merkingu koma aðallega fyrir í munnlegum samskiptum og því oft erfitt að afla heimilda um notkun þeirra nema með því að snúa sér beint að málnotendum. Um áratuga skeið öfluðu starfsmenn Orðabókar Háskólans sér upplýsinga um staðbundið mál og merkingu með því að kalla eftir þeim í útvarpsþættinum Íslenskt mál í Ríkisútvarpinu. Svörin voru svo skráð á seðla og komið fyrir í Talmálssafni Orðabókar Háskólans. Safnið geymir mikinn fróðleik um staðbundið mál, sér í lagi orðalag sem tengist gömlum starfsháttum og þjóðfélagsháttum. Áætlað er að í safninu séu um þrjú hundruð þúsund umsagnir en þó eru engin dæmi um akureyrska notkun orðsins stakkur.

 

Myndir: Dagur, Akureyri

Birt þann 6. maí 2022
Síðast breytt 24. október 2023
Heimildir
  • Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstjórar). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  • Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk-dönsk orðabók eftir Sigfús Blöndal. Kaupmannahöfn.
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  • Tímarit.ishttps://timarit.is/. Reykjavík: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn.