19. júní 2018
Þess er getið í íslenskum annálum að árið 1308 hafi „lærðra manna spítali“, einhvers konar vistheimili fyrir aldraða og sjúka, verið stofnaður í Gaulverjabæ í Flóa. Tveir menn höfðu forgöngu um þessa stofnun: Árni Helgason, biskup í Skálholti 1304–1320, og Haukur Erlendsson, áhrifamaður í íslensku samfélagi og menningarlífi, sem þá hafði um hríð búið í Noregi og starfað þar sem lögmaður. Haukur hlaut frama á norskri grund; hann var konunglegur ráðgjafi Hákonar háleggs og var sleginn til riddara árið 1304 en af þeim sökum er hann jafnan titlaður „herra Haukur“ í annálum.