Skip to main content

Pistlar

Orðabókarhandrit Jóns úr Grunnavík; AM 433 fol.

Handritið sem hér er til umfjöllunar er handrit að íslenskri orðabók og var skrifað af Jóni Ólafssyni úr Grunnavík á árunum 1734 og fram undir það að hann lést 1779. Handritið var því aldrei í eigu Árna Magnússonar heldur varð hluti af safni hans eins og önnur handrit Jóns að honum látnum, stór og smá. Kveikjan að orðabók Jóns var áhugi Árna á að Íslendingar eignuðust góða orðabók þótt ekki lifði hann það né Jón sjálfur. Ævi Jóns var enginn dans á rósum en orðabókarhandritið er góður vitnisburður um elju hans og áhuga á íslensku máli.

Lengi hafði blundað í Jóni að vinna að orðabókarverki þegar hann hófst handa 1734 að vinna að handriti sínu. Það er mjög mikið að vöxtum, um 6000 síður, varðveitt í níu bindum í arkarbroti. Í upphafi setti hann markið hátt enda tæplega þrítugur og bjartsýnn á að markmiðinu yrði náð. Í inngangi sést að Jón hafði í hyggju að hafa ritgerð um íslenska tungu framan við orðabókina, ætlunin var að tilgreina beygingardæmi, eins konar vísi að málfræði, og útbúa ritaskráAf titilblaði, sem upphaflega var skrifað 1736, sést að orðabókarverkinu átti að fylgja skrá yfir mannanöfn og önnur um örnefni. Þær skrár eru til, varðveittar undir safnmarkinu AM 432 fol. og er mannanafnatalið mun ítarlegra og afar gagnlegt við athugun á sögu íslenskra mannanafna.

Smellið á mynd til að stækka hana. Þegar Jón hóf verkið skipti hann vinstri blaðsíðu í opnu í tvo dálka og fyllti aðeins fyrri dákinn. Síðar bætti hann í aftari dálkinn og loks á hægri blaðsíðu opnunnar. Þegar rúm þraut á síðunum skrifaði hann á spássíur, stundum á haus eða þversum, og eru sumar síður þannig að varla er þar óskrifaður blettur. Þegar allt rúm þraut skrifaði Jón á seðla sem lagðir voru inn í handritið eða límdir fastir. Handritið er því afar óárennilegt almennum lesanda og í raun öllum þeim sem ekki eru vanir rithönd Jóns.

Handritið hefur að geyma mikinn orðaforða, ekki aðeins úr eldri og yngri ritum, heldur einnig úr mæltu máli, og mikinn fjölda dæma um orðasambönd og talshætti. Skýringar eru langflestar á latínu en stundum greip Jón til dönsku eða íslensku ef honum þótti latínan ekki nægja. Jón hefur ætlað sér að lýsa íslenskum orðum allt frá fornmáli og fram á sína daga. Tilvitnanir til fornrita koma víða fyrir, einkum við fátíðari orð, en stundum býr Jón til skýringardæmi sjálfur. Ljóst er að Jón hefur lesið mikið af ritum til að safna úr og vitnar hann til fjölmargra, bæði fornra og yngri og rita frá eigin samtíma. Mikill hluti þessara rita var aðeins til í handriti.

Mikill kostur er að Jón gerði sér far um að greina hvaðan af  landinu hann hafði vitneskju um sjaldgæf orð sem hann hafði heyrt í tali manna. Sum hefur hann þekkt sjálfur eða heyrt á Íslandi, önnur hefur hann sjálfsagt heyrt í tali Íslendinga í Kaupmannahöfn. Viðbótarheimildir frá síðari öldum styðja í nær öllum tilvikum heimildir Jóns um staðbundna notkun. Sem dæmi mætti nefna: hráslagi: „Svo kalla Horn-stranda menn avstan-landnordan vind, med sudda af Sjoo og hreti“, ketillúða: piscatores Hornströndum [þ.e. fiskar á Hornströndum], nóra: Occidentalibus Islandis (Breidfiordensibus) usitatum [þ.e. á vestanverðu Íslandi (við Breiðafjörð)].

Orðabókarhandrit Jóns úr Grunnavík er ómetanlegt öllum þeim sem vinna að orðfræðirannsóknum og sögu íslensks orðaforða. [Hægt er að nálgast lista yfir orð í handritinu, sem er á vef Árnastofnunar]

Handritið er nú varðveitt í Reykjavík. Hægt er að lesa meira um það í Góssinu hans Árnaminningum heimsins í íslenskum handritum, sem Árnastofnun gaf út á árinu 2014.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 28. júní 2018