Skip to main content

Pistlar

Hauksbók

Þess er getið í íslenskum annálum að árið 1308 hafi „lærðra manna spítali“, einhvers konar vistheimili fyrir aldraða og sjúka, verið stofnaður í Gaulverjabæ í Flóa. Tveir menn höfðu forgöngu um þessa stofnun: Árni Helgason, biskup í Skálholti 1304–1320, og Haukur Erlendsson, áhrifamaður í íslensku samfélagi og menningarlífi, sem þá hafði um hríð búið í Noregi og starfað þar sem lögmaður. Haukur hlaut frama á norskri grund; hann var konunglegur ráðgjafi Hákonar háleggs og var sleginn til riddara árið 1304 en af þeim sökum er hann jafnan titlaður „herra Haukur“ í annálum. Hann lést í Noregi árið 1334 og vistheimilið sem hann stofnsetti í Gaulverjabæ var liðið undir lok um miðja sextándu öld. En það er skemmtileg tilviljun að það var í Gaulverjabæ sem Árni Magnússon fann bróðurpartinn af skinnhandriti því sem við Hauk er kennt og hann skrifaði reyndar að miklu leyti sjálfur að því er talið er.

Hauksbók AM 371 4to Handritið hafði verið í eigu Brynjólfs biskups Sveinssonar og gekk eftir lát hans 1675 að líkindum til sr. Torfa Jónssonar í Gaulverjabæ, sem var aðalerfingi biskups. Árni veitti því athygli að 14 meðtekin blöð, sem hann hafði fengið vestan úr Súgandafirði, voru úr þessari sömu bók. Á blöðunum að vestan var texti úr Landnámabók og Kristni sögu, og úr Bæ fékk hann fjögur blöð í viðbót úr þessum textum. Þessi 18 blöð eru leifar af fjórum kverum. Þau mynda fyrsta hluta Hauksbókar (nú AM 371 4to) og eru öll með hendi Hauks Erlendssonar. Meðal þess sem hefur týnst úr þessum kverum er blað þar sem Haukur lætur nafns síns getið og vitað er að var í handritinu þar til einhvern tíma á sautjándu öld. Engu að síður er hægt að færa sönnur á að Haukur hafi hér verið að verki, því til eru skjöl með hendi hans, rituð milli 1302 og 1310, sem staðfesta það; höndin er sú sama. Fyrir vikið er rithönd Hauks Erlendssonar elsta rithönd á íslenskum handritum sem hægt er að eigna þekktum einstaklingi.

Haukur var ekki einn um að skrifa bókina. Til viðbótar AM 371 4to koma tveir aðrir hlutar handritsins, sem nú hafa safnmörkin AM 544 4to (107 blöð) og AM 675 4to (16 blöð), og á þeim má greina að minnsta kosti þrettán aðrar rithendur. Verkið virðist að mestu leyti hafa verið skrifað á fyrsta áratug fjórtándu aldar, bæði á Íslandi og í Noregi.

Efni Hauksbókar er sérlega fjölbreytt og sumir textar hennar eru ekki varðveittir í neinum öðrum handritum. Áhugasvið og bókmenntasmekkur Hauks Erlendssonar setja svip sinn á efnisvalið. Þarna eru textar  þar sem Ísland er í miðju — auk Landnámu og Kristni sögu, sem áður var minnst á, má nefna Eiríks sögu rauða og Fóstbræðra sögu — en einnig ritgerðir, þýddar úr latínu eða fornensku, sem varða guðfræðileg úrlausnarefni, landa- og náttúrufræði, reikningslist o.fl. Þá eru hér Trójumanna saga og Breta sögur og síðast en ekki síst varðveitir Hauksbók eina gerð Völuspár.

Enda þótt Árna Magnússyni hafi tekist í upphafi átjándu aldar að sameina það sem þá var eftir af bókinni, átti það ekki fyrir henni að liggja að varðveitast í heilu lagi upp frá því. Hið fjölbreytta efni sem hún geymir varð til þess að við skiptingu safnsins var henni enn skipt upp og einn hlutinn (371 4to) sendur til Íslands meðan hinir tveir (574 4to og 675 4to) urðu eftir í Danmörku.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023