Skip to main content

Pistlar

Konungs skuggsjá - Leiðarvísir fyrir konungssyni

AM 243 b α fol. frá um 1275 er elsta varðveitta handrit Konungs skuggsjár sem er kennslubók ætluð konungssonum og er almennt talin til merkustu miðaldarita Norðurlanda. Konungs skuggsjá var samin í Noregi um miðja þrettándu öld fyrir tvo syni Hákonar Hákonarsonar konungs, Hákon unga og Magnús (sem síðar tók við konungdómi og hlaut auknefnið lagabætir). Þetta eintak af verkinu var ritað fáeinum áratugum síðar eða um 1275. Stafsetning og skrift benda til þess að handritið sé ritað nálægt Björgvin og að skrifarinn hafi komið frá austurhluta Noregs eða Svíþjóð.

Efni kennslubókarinnar er sett fram sem samræða þar sem faðir ráðleggur syni sínum um ýmis mikilvæg atriði er lúta að menntun hins unga valdhafa. Uppbyggilegar samræður um fjármál, landafræði, stjórnspeki, meðferð vopna og réttlæti eru uppistaðan í verkinu. Nokkrir kaflar eru helgaðir umfjöllun um dauðarefsingu þar sem stuðst er við dæmi úr Gamla testamentinu. Önnur viðfangsefni sem koma fyrir í spjalli feðganna eru óvenjulegri og má þar nefna lýsingar á norðurljósum, hafskrímsl í Grænlandshöfum og heilræði um það hvernig konungar geti nýtt sér þjónustu leigumorðingja. Í öðrum köflum er lögð áhersla á siðsamlega hegðun, meðal annars þar sem faðirinn fræðir soninn um hvað beri að varast, „það er drykkja og tafl, portkonur og þrætur og kast um viðurlögur [þ.e. fjárhættuspil]“.

Konungs skuggsjá veitir innsýn inn í daglegt líf kóngafólks á miðöldum með ítarlegum lýsingum á fata- og hártísku við norsku hirðina. Við erum frædd um að góðar hosur megi gera úr brúnu klæði eða svörtum feldi og að æskilegt sé að klæðast alltaf brúnum, rauðum eða grænum kyrtli. Hvað skeggvöxt varðar vísar faðirinn til þess tíma þegar hann var sjálfur hirðmaður: „Var það siður þá að gjöra stutt skegg og snöggvan kamp [þ.e. yfirskegg], og var rakað síðan jaðarskegg á þýðversku“.

Handritið er nú 82 blöð á skinni og þótt um það bil fimmtán af upprunalegu blöðunum séu nú glötuð er það að öðru leyti í prýðilegu ástandi. Það er tvídálka og fjölmargir upphafsstafir skreyta síðurnar, ýmist í bláum, grænum eða rauðum lit. Ekki er vitað hverjir létu gera bókina eða áttu hana í upphafi, en á fjórtándu eða fimmtándu öld hefur hún líklega tilheyrt Þorsteini Jónssyni lénsmanni sem bjó á Haðalandi í Noregi. Síðar komst hún í eigu konunglega danska sagnaritarans Arilds Huitfeldt (1564–1609) sem var sjálfur fæddur í Björgvin og hafði tengsl við ýmsa helstu áhrifamenn í norsku samfélagi. Hugsanlegt er að hann hafi fengið handritið hjá einhverjum kunningja sinna á ferðum sínum til Noregs 1582 og 1597. Árni Magnússon minnist þess í einni af minnisgreinum sínum að Huitfeldt hafi gefið AM 243 b α fol. öðrum sagnaritara í þjónustu Danakonungs, Jon Jacobsen Venusinus (d. 1608). Nokkru síðar komst það í hendur aðalsmannsins Otte Friis (d. 1699) sem gaf það ættingja sínum, Jens Rosencrantz etatsráði. Árni Magnússon keypti það svo af ættingjum Rosencrantz eftir að hann lést árið 1695 ásamt allmörgum öðrum handritum. Handritið er varðveitt í Kaupmannahöfn.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018