Skip to main content

Pistlar

Langa Edda; AM 738 4to

Smellið á myndi til að stækka AM 738 4to er pappírshandrit frá síðari hluta sautjándu aldar. Margir fræðimenn hafa skrifað um einstaka texta sem þar eru varðveittir en þegar fjalla á um handritið í heild kemur í ljós að furðu lítið er um það vitað. Skýringin gæti verið sú að forsíðu handritsins vantar en þar eru oft mikilvægar upplýsingar. Ekki er vitað hvar þetta handrit var skrifað, hver skrifaði það né í hvaða tilgangi. Það hefur að geyma kafla úr Snorra Eddu og mjög fjölbreyttan kveðskap, bæði fornan, svo sem eddukvæði og dróttkvæðar vísur með skýringum, kveðskap úr samtíma skrifarans svo og rúnakvæði og særingaljóð. Þar sem Snorra-Edda byrjar stendur ártalið 1680 og hlýtur handritið að vera skrifað þá eða um það leyti.

Handritið er óvenjulegt í laginu, 135 blöð í aflöngu broti, 33 x 10,5 cm, með öðrum orðum langt og mjótt, og því stundum kallað Langa Edda (Edda oblonga). Lögun handritsins tengist án efa innihaldinu. Form bóka getur gefið upplýsingar um hvaða efni skrifarinn hafði hugsað sér. Verk í óbundnu máli voru oftast skrifuð upp í stóru broti en mjórri síður hentuðu betur fyrir kveðskap. Eddutextinn hér er ekki samfelldur prósi heldur ýmsar upptalningar og má segja að handritið sé eins konar uppflettirit með myndum.

Feril handritsins rekur Árni Magnússon sjálfur á seðlum sem fylgja því. Hann segir á einum miða: „Þetta er komið frá Ingibjörgu, í Bæi í Hrútafirði, til M.J.S.“ og ofanlínu bætir hann við: Magnúss Jónssonar frá Leirá, „frá honum til mín“. Á annan miða hefur hann skrifað: „þetta hefur átt Sigurður Gíslason í Bæ“.

Fyrir Snorra Eddu köflunum er glæsileg titilsíða og á henni stendur m.a.: „Skrifað að nýju Anno … 1680.“ Milli orðanna ‘Anno’ og ‘1680’ er áhugavert tákn. Það er bandrún en svo kallast það þegar nokkrar rúnir eru tengdar saman sem er skammstöfun fyrir: d(omini) nos(tri) Cr(isti). Hér stendur því einfaldlega: „Anno domini nostri Christi 1680“ eða: Á því herra vors Kristí ári 1680. En í skrautinu fyrir neðan sjást tveir upphafsstafir vinstra og hægra megin: SG. Eins og áður segir var einn af eigendum handritsins Sigurður Gíslason (1655–1688) skáld, á Bæ í Miðdölum. Sigurður var hálfbróðir Ingibjargar Jónsdóttur (1643–1710) sem síðar eignaðist handritið. Frá henni fór handritið til Magnúsar Jónssonar á Leirá.

Magnús (um 1679–1702) var á tímabili skólameistari í Skálholti. Systir hans var Þórdís sem að einhverju leyti er fyrirmynd Snæfríðar í Íslandsklukku Halldórs Laxness. Fyrst Árni fékk handritið frá honum hlýtur það að hafa verið komið í eigu Árna um 1700, aðeins 20 árum eftir að það var skrifað. Árni gæti því vel hafa vitað nákvæmlega hver skrifaði það og hvar. Böndin berast að Sigurði Gíslasyni en einnig að Skálholti.

Handritið hefst á lista með tólf spurningum úr Snorra Eddu. Þær eru fremur erfiðar og greinilega ætlaðar þeim sem þekkja Eddu vel. Hugsanlega er það með vilja gert að hafa spurningarnar fremst og skrifa Eddukafla svo upp aftar í handritinu þar sem svörin er að finna. Fyrstu þrjár spurningarnar eru þessar:

Segðu mér, hvað Vígríður er og sé það nokkur mælilegur hlutur, hvað margra rasta hann er og hvörjir þar menn mætast og nafn þess sem fyrr meir leysti úr þeirri spurn.

Segðu mér það annað hvör ása elstur er Ýmis niðja.

Hvar hefur Hræsvelgur sitt aðsetur, er það maður eður hvað?

Eitt af því sem er athyglisvert við Löngu Eddu er að hér er ekki bara listi yfir norrænu heiðnu goðin heldur líka yfir persónur úr klassískri goðafræði sem er vísbending um að menn hafi á sautjándu öld verið farnir að bera lífssýn þessara tveggja goðheima saman. Í handritinu eru 23 litskreyttar myndir af goðunum með ýmsum athugasemdum. Skrifarinn hefur gert þessar athugasemdir við myndina af Gunnlöðu: ʻMjöð gefur Gunnlöð. Óðinn hann kyssti hana og var hjá henni þrjár nætur. Suttungsdóttir. Kysstu mig og skaltu verða skáld. Faðmaðu mig og skaltu kveða vel.ʼ Bragi og Loki Laufeyjarson standa saman á síðu og við hlið þeirra er listi yfir kenningar sem nota má um þá. Við mynd af Freyju stendur: ʻBrísingamen, gulltár, Venus, Amor, Afmorsgyðjaʼ og loks neðst til vinstri: ʻSýnir firn sittʼ. Freyja virðist benda á stokkabeltið sem hún er með um sig miðja. Að öllum líkindum er hún klædd í hátíðarbúning kvenna á þeim tíma sem handritið er skrifað og skreytt.

Því miður er ekki vitað hver gerði myndirnar. Eins og áður segir er ekki vitað hvar handritið er skrifað en nokkrar veikar vísbendingar tengja það Skálholti. Hafi handritið verið skrifað þar um 1680 má velta fyrir sér hvort það tengist því að þá var Þórður Þorláksson (1637–1697) biskup í Skálholti, afar drátthagur maður.

Eina nafngreinda skáldið úr samtíma skrifarans (fyrir utan Odd Þórðarson sem lítið er vitað um) er Hallgrímur Pétursson (1614–1674). Hér er kvæði hans Aldarháttur sem hefur verið vinsælt eins og sjá má af því að það er varðveitt í tæplega 50 handritum og tvö önnur kvæði eftir hann eru hér líka. Annað nefnist Samstæður en hefur einnig titilinn Gaman og alvara. Það eru gamansamar athuganir um lífið og tilveruna, upptalning á því sem er gott, slæmt, algengt, sjaldgæft o.s.frv. Eitt af erindunum er helgað fegurðinni 

Fagur er: fjallsblettur,

fákur skeiðléttur,

hár múr hólmsettur,

hringur baugréttur,

bugur blómsettur,

baðmur laufþéttur,

gras það grænt sprettur,

gular hárfléttur.

Kvæðið allt má lesa í Hallgrímskveri. Ljóð og laust mál eftir Hallgrím Pétursson sem út kom hjá Forlaginu 2014. (Bls. 198–205)

Handritið er nú varðveitt í Reykjavík. Hægt er að lesa meira um það í Góssinu hans Árnaminningum heimsins í íslenskum handritum, sem Árnastofnun gaf út á árinu 2014.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023