Skip to main content

Pistlar

Jarðakaupsbréf - Selárdalsprestur kaupir jörð fyrir lifandi fé, slátur og járn

Í landslagabókinni (Jónsbók) sem samþykkt var á alþingi 1281 segir að við jarðakaup skuli kveða á um landamerki og kaupa land með handsölum að viðstöddum vottum. Bréf skuli gera um kaupin með skilmálum og hafa innsigli fyrir. Eignir flestra sem eitthvað áttu á annað borð á fyrri öldum fólust að meginhluta í jörðum. Jarðakaup og jarðaskipti voru því tíð og til urðu afar mörg jarðakaupsbréf. Þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín hófu jarðabókarstörf á Íslandi á vegum Danakonungs árið 1702 var fyrsta verk þeirra að kalla eftir uppskriftum jarðakaupsbréfa sem jarðeigendur og kirkjuhaldarar varðveittu til sönnunar og varnar eignarrétti sínum og kirknanna. Árni fékk í hendur fjölda jarðaskjala í frumritum og lét gera uppskriftir eftir þeim. Þau jarðakaupsbréf í safni Árna sem gerð voru fyrir 1570 eru prentuð í Íslenzku fornbréfasafni.

Jarðakaupsbréf eru í föstu formi: Bréfið er ársett, dagsett og staðsett, seljendur, kaupendur og vottar nafngreindir svo og jörðin eða jarðirnar sem kaupin snúast um og jafnan tekið fram að jörð er seld með „öllum gögnum og gæðum sem henni hafa fylgt að fornu og nýju.“ Landamerkjum er oft lýst og því hafa mörg bréfanna enn réttargildi. Jarðakaupsbréf eru mikilvægar heimildir um mannfræði, örnefni, landslag, landamerki, landnýtingu, verslunarhætti og búskaparlag.

 

AM dipl. Isl. Fasc. X 13. Ljósmynd: Jóhanna Ólafsdóttir. Þetta skinnbréf er skrifað 10. júlí 1439 í Selárdal í Arnarfirði og ber safnmarkið AM Dipl. Isl. Fasc. X 13. Með því gerir Árni Guttormsson kunnugt að hann hafi selt Bjarna Sigurðssyni presti í Selárdal jörðina Kvígandisfell í Tálknafirði með  gögnum og gæðum og tilgreindum landamerkjum: „að Kvígandisfell á allan Fagradal báðum megin ár framan að hagagarði og að Kambsgili fyrir utan Stegludal.“ Kaupverðið er tilgreint að hluta: lifandi búfé, vaðmál, smjör og slátur. Jarðarverðið var 32 hundruð og greiddi Bjarni prestur það skilvíslega. Í Selárdal þann 14. desember 1440  fékk hann Árna Guttormssyni ketil, söðul, járn, klæði, hest og pansara upp í jarðarverðið. Tveimur árum síðar var jörðin greidd að fullu.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018