Skip to main content

Pistlar

Handrit húsmanns - Húsmaður skrifar handrit

Í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn eru mörg íslensk handrit. Ýmsar ástæður eru fyrir því að þau rötuðu í bókhlöðu konungs en oft voru keypt handrit bókasafnara til safnsins. Meðal bókasafna sem bókhlaðan keypti var safn Abrahams Kalls (1743–1821) sagnfræðings, háskólabókavarðar og prófessors. Í safni hans eru hátt í 80 handrit sem eru tengd norrænu málsvæði; þau eru öll á pappír og langflest íslensk frá 18. öld.

Í safni Kalls er m.a. snoturt pappírshandrit sem ber safnmarkið 611 4to. Það er alls 152 blöð en hefur upphaflega verið tvö handrit. Fyrri hlutinn — Grettis saga á 64 blöðum — var skrifaður árið 1704, en síðari hlutinn (bl. 65–152) er frá miðri 17. öld og var skrifaður af Katli Jörundssyni presti í Hvammi í Hvammssveit; á þeim hluta eru fornaldarsögurnar Ketils saga hængs, Örvar-Odds saga, Hálfdanar saga Brönufóstra og Þorsteins saga Víkingssonar. Handritið er varðveitt í Kaupmannahöfn eins og önnur íslensk handrit sem voru í eigu danskra bókasafnara.

Við lok Grettis sögu á bl. 64v stendur: ‘Skrifad ef so mä heita A BiarneÿuAnno 1704. Af Eÿnare Eirichssyne’. Föðurnafnið er óskýrt en það er varla hægt lesa öðruvísi úr því en hér er gert. Þar að auki vill svo skemmtilega til að í manntalinu frá árinu 1703 er að finna mann með þessu nafni á Bjarneyjum: 35 ára gamlan húsmann að nafni Einar Eiríksson. Þetta er án vafa sami maður.

Ekkert er vitað um Einar húsmann á Bjarneyjum annað en það sem kemur fram í manntalinu. Það virðist sem hann hafi verið ókvæntur og barnlaus. Í manntalinu er greint á milli ábúenda og fjölskyldna þeirra, húsmanna, búðarmanna og hjúa og er Einar húsmaður talinn til heimilisfólks Arnbjarnar Loftssonar áttunda ábúanda á Bjarneyjum og Þorgerðar Ólafsdóttur; þar búa einnig þrjú börn þeirra hjóna, húskona og eitt vinnuhjú. Fjölmenni bjó á Bjarneyjum árið 1703 eða 87 manns á átta býlum og í sex búðum, auk húsgangsmanns og tveggja unglinga sem voru „í setu“; alls voru 24 í húsmennsku á býlunum átta.

Um miðja 17. öld var það alls ekki sjálfsagt að menn kynnu að skrifa og rannsókn á undirskriftum erfðahyllingar Friðriks þriðja konungs árið 1649 bendir ekki til að bændur hafi almennt verið skrifandi og því skyldi maður ætla að hjáleigubændur, húsmenn, tómthúsmenn (búðarmenn), vinnuhjú og flakkarar kynnu enn síður að skrifa. Þar að auki verður að hafa í huga að þótt einhver hafi getað párað nafnið sitt er ekki þar með sagt að sá hinn sami hafi verið fær um að skrifa langa sögu, en Einar Eiríksson húsmaður á Bjarneyjum var fær um það. Um það vitnar Grettis saga í Kall 611 4to.

Birt þann 19. júní 2018
Síðast breytt 25. júní 2018