Skip to main content

Kjalnesinga saga - Kjalnesingar, Króka-Refur og Hrafnistumenn

AM 471 4to er lítið og hnellið handrit frá síðari hluta 15. aldar. Í því eru Íslendinga-sögurnar Þórðar saga hreðu, Króka-Refs saga og Kjalnesinga saga, sögurnar af Hrafnistumönnunum Katli hæng, Grími loðinkinna og Örvar-Oddi og riddarasagan Viktors saga og Blávus. Handritið er alls 108 blöð og hefur upphaflega verið hluti sama handrits og fremri hluti AM 489 4to sem er 26 blöð. Á fremri hluta 489 eru Bárðar saga Snæfellsáss og riddarasagan Kirjalax saga, en á aftari hlutanum, sem er úr öðru handriti, eru riddarasögur.  

Myndin sýnir niðurlag Króka Refs sögu og upphaf Kjalnesinga sögu; yfirskrift Kjalnesinga sögu er ritað efst á vinstri síðu með fagurrauðu bleki. Hægt er að stækka myndina.

AM 471 4to er lúið og víða illlæsilegt; blöð eru orpin, blettótt og götótt og texti víða máður. Kaflafyrirsagnir með rauðum lit í hafa máðst og jafnvel horfið. Allnokkur blöð vantar í handritið og hefur verið bætt sums staðar úr því á 17. öld með því að skrifa textann á ný skinnblöð og skjóta þeim inn í handritið í stað þeirra horfnu. Á bl. 1r er fyrirsögn og efnisyfirlit. Fyrirsögnin er frá 17. öld, að hluta til rituð með rauðu bleki og íburðarmiklum stöfum. Til að koma henni fyrir (á hálfri síðu) hefur niðurlag Bárðar sögu Snæfellsáss verið skafið burt. Að öðru leyti er þá sögu er að finna í AM 489 4to.

Skrifari handritsins er óþekktur, en skriftin er gotnesk léttiskrift. Sama hönd er á AM 489 4to (fremri hlutanum) og AM 641 4to (á 9 blöðum af 33) og Sth. Isl. perg. 8 4to (á 6 blöðum af 27). Skyld rithönd er á fornbréfunum AM dipl. Isl. fasc. XIV 18 og AM dipl. isl. fasc. XXI 24 sem voru skrifuð 23. apríl 1459 í Neðra-Hjarðardal í Dýrafirði og 21. apríl 1475 í Hvilft í Önundarfirði. Það er því ekki ólíklegt að handritin séu vestfirsk.

AM 471 4to er bundið inn í tréspjöld en kjölurinn er opinn; kvarnast hefur úr fremra kápuspjaldi. Blöð úr latneskri messusöngsbók með nótum eru notuð sem saurblöð. Blöð úr sömu messusöngsbók voru notuð í band á AM 489 4to og AM 510 4to, en þau bera nú safnmörkin AM Acc. 48 a og AM Acc. 48 d. Árni Magnússon fékk AM 471 4to og AM 489 4to frá Magnúsi Magnússyni á Eyri í Seyðisfirði og AM 510 4to fékk hann frá Jóni Þorkelssyni ( sem kallaði sig Vídalín og varð síðar biskup í Skálholti) en hann fékk bókina frá Ingibjörgu Pálsdóttur á sömu Eyri. Hún var tengdadóttir Magnúsar. Það er líklegt að bækurnar hafi verið bundnar inn við Ísafjarðardjúp og messusöngsbókin vitjað örlaga sinna þar. Og þegar bækurnar voru bundnar inn hafi 26 blöð úr 471 verið færð yfir í 489 vegna þess að eigandanum hafi þótt sú fyrrnefnda of þykk. AM 510 4to var skrifað um miðja 16. öld af Tómasi og Jóni Arasonum og föður þeirra, Ara Jónssyni, en þeir voru Vestfirðingar.

AM 471 4to var afhent Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi 5. júní árið 1990. Nú er handritið á sýningu í Aðalstræti 16 í Reykjavík þar sem Landnámssýningin 871 ± 2 er til húsa, en fjórum handritum og einu fornbréfi hefur verið komið þar fyrir á sýningu með skálarústum. AM 471 4to hefur að geyma þrjár Íslendinga sögur, og ein þeirra, Kjalnesinga saga, gerist — eins og nafnið bendir til — að mestu á Kjalarnesi sem er í næsta nágrenni við Reykjavík og innan marka hins fyrsta landnáms á Íslandi.

Birt þann 19.06.2018