Umsóknarfrestur um styrki Snorra Sturlusonar
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast styrki Snorra Sturlusonar. Styrkirnir eru veittir erlendum rithöfundum, þýðendum og fræðimönnum (ekki háskólastúdentum) á sviði hugvísinda til að dveljast á Íslandi í þrjá mánuði hið minnsta í því skyni að kynnast sem best íslenskri tungu, menningu og mannlífi.
Styrkirnir miðast að öllu jöfnu við greiðslu á ferðakostnaði styrkþega til og frá Íslandi og dvalarkostnaði innanlands. Af tveimur jafnhæfum umsækjendum skal að jafnaði sá hljóta styrk sem er frá Austur- og Suður-Evrópu, Asíu, Afríku, Rómönsku Ameríku eða Eyjaálfu.
Umsóknarfrestur er til 1. desember. Sjá nánar um styrkinn og skráningarblað á upplýsingasíðu.
Umsóknarfrestur um styrk til BA-náms í íslensku sem öðru máli
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast umsýslu með styrkjum menningar- og viðskiptaráðuneytis til erlendra stúdenta til að stunda íslenskunám við Háskóla Íslands.
Árlega eru veittir um það bil tólf styrkir til BA-náms í íslensku sem öðru máli. Nemendur verða að hafa lokið a.m.k. einu námsári á háskólastigi.
Umsóknarfrestur er til 1. desember. Sjá nánari upplýsingar um styrkinn og skráningarblað á ensku.
Umsóknarfrestur fyrir sumarskóla í íslenskri tungu og menningu
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og hugvísindasvið Háskóla Íslands standa fyrir alþjóðlegum sumarskóla í íslenskri tungu og menningu í júlímánuði ár hvert. Námskeiðið er einkum ætlað stúdentum í tungumála- og bókmenntanámi en aðrir sem áhuga hafa á íslensku nútímamáli og menningu eiga þess kost að sækja námskeiðið.
15. febrúar er síðasti dagur til að skila inn umsóknum en sumarskólinn hefst 1. júlí 2025.
Sjá nánari upplýsingar um sumarskólann á íslensku eða ensku.