Í vikunni var stofnuninni afhentur merkilegur gripur: postulasagnahandrit frá árinu 1833. Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar tók við handritinu úr hendi Sverris Kristinssonar en handritið hefur verið í hans eigu í næstum hálfa öld. Þórður Ingi Guðjónsson hafði milligöngu um gjöfina.
Handritið er í fjórðungsbroti, 186 blaðsíður. Á titilsíðu þess kemur fram að það er skrifað í Purkey við Skarðsströnd árið 1833 af Ólafi Sveinssyni (1761–1845).
Titill bókarinnar er: „Sögurnar af þeim heilögu Herrans Jesu Christi Postulum, hverjir eð voru þeir enir æðstu af hans lærisveinum, þeirra kenningar, jarðteiknir, lifnað og framferði, hörmungar, sem og þeirra harmkvælafullan dauða og afgang.“
Ferill handritsins
Ólafur Sveinsson hefur gefið dóttur sinni Guðrúnu handritið því að á fremra saurblaði stendur: ‘Þessa Bok á gudrún ólafs-dott‹i›r vitnar Olafur Sveinss[o]n’.
Seinna var handritið ‘gefið af Jónasi í Skógum Lestrarfjelaginu á Fellsströnd’. Þetta mun vera Jónas Jónsson (1828–1908) bóndi í Skógum á Fellsströnd 1865–1897; nafn hans er skrifað fullum stöfum (líklega með hans eigin hendi) á aftasta blaði handritsins. Á titilsíðu er handritið jafnframt merkt Lestrarfélagi Fellsstrendinga með þremur stimplum.
Sverrir Kristinsson, fasteignasali í Reykjavík, eignaðist handritið á uppboði í Reykjavík 19. mars 1977.
Þórður Ingi fékk handritið að láni 2007 vegna útgáfu sinnar á Tómas sögu postula (Frá Sýrlandi til Íslands – Arfur Tómasar postula (2007)) og hefur það í tæpa tvo áratugi verið varðveitt í handritageymslum Árnastofnunar. Þar verður það um ókomna tíð þar sem Sverrir afhenti stofnuninni handritið formlega til varðveislu í fyrradag, 20. janúar 2026. Það fékk safnmarkið SÁM 192.
