Skip to main content

Fréttir

Árnastofnun tilnefnd til verðlauna á sviði opinberrar stafrænnar þjónustu

Merki Skýrslutæknifélags Íslands.
Ský

Hin árlega verðlaunaathöfn Ský, Skýrslutæknifélags Íslands, verður haldin í sextánda skipti 6. febrúar næstkomandi. Upplýsingatækniverðlaun Ský eru veitt fyrir „framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi.“

Að þessu sinni hefur Árnastofnun hlotið tilnefningu í flokknum Stafræn opinber þjónusta. Í tilnefningunni segir:

Árnastofnun hefur unnið gott og vaxandi starf við að búa til og gefa út stafræn gagnasöfn undir opnum leyfum til að styðja við íslenska tungu og menningu, bæði á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Meðal mikilvægustu verkefnanna eru Beygingarlýsing íslensks nútímamáls, Risamálheild, stafrænar orðabækur og íðorðasöfn, íslenskt orðanet, Ísmús, Nafnið og handrit.is. Stofnunin rekur fjölmarga vefi með opnu aðgengi: https://arnastofnun.is/is/vefir-arnastofnunar. Nú á allra síðustu árum hefur Risamálheildin verið lykilgagn í þjálfun mállíkana fyrir íslensku og á þátt í því að útbreidd, alþjóðleg gervigreindarkerfi eru eins góð í íslensku og raun ber vitni. Þá er Beygingarlýsing íslensks nútímamáls algjört þrekvirki og grundvallargagn alls kyns annarra lausna.

Hér má sjá yfirlit yfir alla þá vefi og veforðabækur sem Árnastofnun heldur úti.