Rafrænar textaútgáfur
Rafræn útgáfa Konungsbókar eddukvæða
Höfuðhandrit eddukvæða, GKS 2365 4to, Konungsbók, frá um 1270, er nú aðgengilegt í nýrri röð rafrænna textaútgáfna, Editiones Arnamagnæanæ Electronicæ, á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Árnasafns í Kaupmannahöfn. Guðvarður Már Gunnlaugsson, Haraldur Bernharðsson og Vésteinn Ólason standa að þessari útgáfu Konungsbókar eddukvæða en árið 2019 kom út prentuð bók sem er hluti af sama útgáfuverkefni.
Í þessari rafrænu útgáfu er hægt að skoða ljósmyndir af sérhverri síðu handritsins og nákvæma uppskrift textans. Enn fremur fylgir málfræðigreining hverju orði og lemmaður orðstöðulykill. Rafræna útgáfan mun því ekki síst nýtast sem verkfæri við frekari rannsóknir á texta kvæðanna í handritinu.
Í þessari rafrænu útgáfu er hægt að skoða ljósmyndir af sérhverri síðu handritsins og nákvæma uppskrift textans. Enn fremur fylgir málfræðigreining hverju orði og lemmaður orðstöðulykill. Rafræna útgáfan mun því ekki síst nýtast sem verkfæri við frekari rannsóknir á texta kvæðanna í handritinu.
The Rímur Poetry of Ten Kvæðamenn: Research on Variations
Ensk þýðing á rannsókn danska þjóðlagafræðingsins Svend Nielsens á tilbrigðum í rímnakveðskap. Upprunalega kom þessi bók út á íslensku 2022 en er nú gefin út sem rafbók með sögulegum upptökum á kveðskap kvæðamannanna. Í bókinni er sagt frá söfnun og rannsókn á rímnakveðskap tíu kvæðamanna á árunum 1964–1971. Kveikjan að rannsókninni voru ummæli sem séra Bjarni Þorsteinsson viðhafði í inngangi að rímnalögunum sem hann birtir í bók sinni Íslenzk þjóðlög sem út kom 1906–1909. Þar talar hann um að sum rímnalög verði til á augnablikinu. Kvæðamaðurinn hefur þá ekkert visst lag í huga áður en hann byrjar en býr lagið til um leið og hann kveður. Spurningin var hvort enn þá væri hægt að finna kvæðamenn sem færu þannig með kvæðalög og leitin bar árangur. Með fylgir inngangur þar sem settar eru fram skilgreiningar á rímum, bragarháttum, skáldamáli og rímnalögum og bent á frekari heimildir auk þess sem rannsókn Svend Nielsens er sett í samhengi við aðrar skandinavískar rannsóknir á munnlegum flutningi kvæða. Philip Roughton þýddi bókina.
Sýnisbók íslenskrar skriftar
Sýnisbók íslenskrar skriftar var upphaflega gefin út árið 2004 sem tilraunakennslubók í handritalestri. Hún reyndist ágætlega svo að ákveðið var að gefa hana út að nýju, taka út myndir af blaðsíðum úr prentuðum bókum en setja inn fleiri myndir af blaðsíðum úr handritum og einnig voru leiðréttar villur sem höfðu fundist. Önnur útgáfa kom út árið 2007 og er það hún sem er gefin hér út rafrænt.