Á dögunum hélt Jón Egill Eyþórsson, sérfræðingur á sviði austur-asískra fræða, gestafyrirlestur í Eddu um forn kínversk handrit.
Fyrirlesturinn var liður í því að efla menningarsamskipti milli Íslands og Kína, einkum á sviði rannsókna og málakennslu, en ársfundur íslenskukennara við háskóla erlendis verður nú í maí í fyrsta sinn haldinn í Asíu. Það var Háskóli erlendra fræða í Peking sem varð fyrir valinu en þar hefur íslenska verið kennd síðan 2008.
Tengsl þessara tveggja þjóða á sviði íslenskukennslu má rekja aftur til ársins 1961 þegar fyrsti námsmaðurinn frá Kína hlaut styrk til íslenskunáms við Háskóla Íslands. Síðan þá hafa fjörutíu og tveir námsstyrkir verið veittir til íslenskunáms og einn styrkur á sviði íslenskrar menningar.
Einnig má geta þess að fyrsta útgáfa Íslendingasagna á kínversku kom út árið 2000. Þá voru gefnar út sjö sögur og fjórir þýðendur stóðu fyrir útgáfunni þar í landi.
Meðal gesta á fyrirlestrinum var sendiherra Kína á Íslandi, en sendiherranum og föruneyti hans var í kjölfarið boðið að heimsækja handritasýninguna Heimur í orðum þar sem gestunum gafst kostur á að fræðast um íslenska ritmenningu.
