20. júní 2018
Birtist upphaflega í mars 2013.
Kolgrafafjörður á Snæfellsnesi hefur talsvert verið í fréttum undanfarna mánuði vegna mikils síldardauða þar í desember 2012 og aftur í febrúar 2013. Nafnið Kolgrafafjörður er nú notað um fjörðinn allan, allt frá botni (Hlöðuvogi) og út undir Akureyjar. Að fornu var nafnið eingöngu notað um innri hluta fjarðarins, frá botni og fram undir þrengingarnar við Hjarðarbólsodda og Berserkseyrarodda, á svipuðum stað og brúin er nú. Kolgrafafjarðarnafnið er dregið af bænum Kolgröfum sem stendur við austanverðan innfjörðinn framarlega.