Sumar bækur verða til á löngum tíma og það er ekki alltaf auðvelt að segja til um hvenær þær eru fullskrifaðar. Til eru handrit sem minna meira á drög að bók en fullgert rit og sum bera með sér að margir skrifarar hafa lagt hönd að verkinu og sveigt að sínum smekk og áhugamálum. Hér skiptir líka máli að skrifarar voru bundnir af því efni sem þeir gátu náð í til eftirritunar. Þegar margs konar textum er safnað saman á eina bók getur hún því sýnt hvort tveggja í senn: þær bókmenntir sem voru í umferð á þeim tíma og því svæði sem bókin var rituð, og ætlun skrifara eða ritbeiðenda með verkinu.
Handritið AM 764 4to ber skýr merki um að til þess hafi verið safnað á alllöngum tíma. Það skiptist ekki í regluleg kver heldur er eins og tvinnum, stökum blöðum og stundum blaðsneplum hafi verið bætt í bókina eftir því sem skrifurum fjölgaði. Og svo hafa blöð aftur tekið að týnast því handritið er nú óheilt og ógerlegt að segja til um hve mörg blöð voru í því þegar það var fyllst. Árni Magnússon fékk meginhluta þess frá Gaulverjabæ í Flóa en þangað var handritið komið úr Skálholti og er líklegt að Brynjólfur biskup Sveinsson hafi eignast það einhvern tíma á sautjándu öld. Meðal efnis í því er annálsbrot sem nær yfir árin 1328–1372 og trúlegt að það hafi einkum vakið áhuga biskups á bókinni. Handritið var hins vegar að líkindum skrifað norður í Skagafirði á sjöunda og áttunda tug fjórtándu aldar og áreiðanlega fyrir einhverja kirkjulega stofnun. Til þess bendir efnisvalið, en í handritinu er fyrst kristileg veraldarsaga og þar á eftir einkum jarteinir og kristnar dæmisögur auk annálsins sem fyrr var getið. Bókin telur nú 43 blöð í fullri stærð og 5 snepla en auk þess hafa trúlega tilheyrt henni tvö blöð sem eru undir safnmarkinu AM 162 M fol.
Handritið er skemmtileg heimild um það efni af erlendum meiði sem ætla má að hafi verið í umferð á norðanverðu Íslandi á fjórtándu öld. Veraldarsagan er nefnilega ekki þýðing á neinu einu latínuverki heldur settu skrifararnir hana saman með því að skeyta saman bútum úr ýmsum textum sem lágu þegar fyrir á íslensku. Þar á meðal voru alfræðirit, þýðingar úr biblíunni, gervisagnfræðirit eins og Breta sögur, Trójumanna saga og Gyðinga saga, listar yfir páfa og keisara, apókrýfar frásagnir af Jesúbarninu auk spásagna um endalok heimsins, dómsdag og nýtt þúsund ára ríki. Flest þetta efni er einnig varðveitt annars staðar en þó geymir AM 764 4to eitt handrita íslenska þýðingu Júdítarbókar, einnar af apókrýfu bókum Gamla testamentisins. Í síðari hluta handritsins má meðal annars finna jarteinir heilagrar Valborgar sem ekki hafa varðveist annars staðar og þar hefur líka staðið jartein — eða jarteinir — heilagrar Sunnefu en þar er eyða í handritinu og aðeins niðurlagið varðveitt.
Vegna þess hve konum er gert hátt undir höfði í bókinni er ekki fráleitt að álykta að hún hafi verið ætluð íslenskum konum sem höfðu gengist Guði á hönd, og skagfirskur uppruni bókarinnar bendir þá eindregið til klaustursins á Reynistað sem heimilis hennar.
Síðast breytt 24. október 2023