Skip to main content

Pistlar

Sagnakonan Sigurlína Guðbjörg Valgeirsdóttir (1900–1992)

 

Sigurlína Guðbjörg Valgeirsdóttir (1900–1992); hún fékk kosningarétt 25 ára gömul og gat kosið til Alþingis í fyrsta sinn árið 1927. Hallfreður Örn Eiríksson heimsótti hjónin Andrés Guðmundsson og Sigurlínu Guðbjörgu Valgeirsdóttur að heimili þeirra að Ásvallagötu 5 í Reykjavík þann 12. maí 1972 og tók upp ýmsan fróðleik sem þau voru fús að miðla. Þau byrja á að segja draugasögur en fljótt kemur í ljós að Sigurlína hefur ekki sterka draugatrú og gerir heldur grín að þessum sögum. Hún segir næst frá álagablettum og segir þá að ekki sé hægt að bera á móti því að ýmis óhöpp hafi orðið eftir að þeir voru slegnir. Hún hefur heyrt margar huldufólkssögur m.a. frá fóstru sinni, Soffíu, sem dreymdi oft huldukonu sem bjó í nágrenninu. Hún er þó ekki trúuð á tilveru huldufólks en vill gjarnan deila sögunum sem fróðleik. Sigurlína segir einnig frá húslestrum og sálmasöng á heimili fóstru sinnar, fer með þulur og þulubrot en segir að lokum frá því að eitt vorið, fyrir hennar minni, hafi ekkert verið til að borða á heimili fóstru hennar því sjómennirnir fengu síðustu matarbitana með sér í nesti loksins þegar þeir komust á sjó vegna veðurs. Þá tók Soffía fóstra það til ráðs að búa til netspotta úr spunnum þræði og fór með annarri konu og lagði netið. Þær fengu níu grásleppur „og það [var] góður matur“ og „svona voru þær nú harðar og duglegar kellingarnar.“

Þann 10. febrúar 1985 hitti Hallfreður Sigurlínu á Hrafnistu og fékk hana fyrst til að rifja upp sögurnar um drauga, huldufólk, og álagabletti. Hún segir síðan frá sjóslysum og draumum. Eftir að hafa eignast tíu börn varð Sigurlína berklaveik og þurfti að fara á hæli fyrir sunnan. Á meðan hún var þar dreymdi hana fyrir öllum veikindum barna sinna og annarra fjölskyldumeðlima.

Sigurlína fæddist á Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum þar sem foreldrar hennar bjuggu á hluta jarðarinnar. Þau eignuðust átján börn en aðeins fjórtán þeirra komust upp og tólf þeirra ólust upp hjá foreldrum sínum. Sigurlína segist sjálf hafa strokið að heiman þegar hún var fimm ára og bætir við: „Uppreisnarandinn gegn ríkjandi kerfi gerði snemma vart við sig.“ Það var þó ekki langt að fara því hjónin sem tóku hana að sér bjuggu í hinum enda baðstofunnar.

Í upptökunum heyrist að Sigurlína var hláturmild og orðheppin kona, en einnig er ljóst að líf hennar var ekki alltaf dans á rósum. Erfiðleikarnir við að þurfa að fara á berklahælið og áhyggjurnar sem hún hefur haft af börnunum sínum tíu sem þurfti að koma fyrir „hingað og þangað“ koma fram í draumunum sem hún segir frá í upptökunum. Lífi sínu sem sjómannskona lýsir hún í prentuðum endurminningum (í Hrafnistumenn (1985), III 209–218):

Að vera sjómannskona með stóran barnahóp og hafa af skornum skammti flest það sem til framfæris þarf getur tæpast talist auðveld ævi. Það geta þeir best skilið sem til þekkja og þær konur sem reynt hafa. Ég hef ekkert um það frekar að segja, ætli það venjist ekki eins og hvað annað.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 22. júní 2018