[...]
„Guðný Snorradóttir fæddist um 1771. Um æsku hennar hafa sagnirnar það eitt að flytja, er þær telja hafa ráðið mestu um æviferil hennar og siði síðar. Útburðirnir í Teitsgili höfðu ekki gleymzt.
Þegar Guðný var lítil var hún eitt sinn í smalamennsku. Þá var það sem henni virtist annar útburðurinn nálgast sig hún tók á rás með hann á hælunum heim til bæjar. Og endaði með því að klerkur faðir hennar varð að grípa til kunnáttu sinnar og kvað útburðinn frá dóttur sinni, og það svo dyggilega að hann lét ekki á sér bæra síðan. En Guðný litla „varð aldrei jafngóð".
Sögn þessa sagði Kristleifur á Stóra-Kroppi (þriðji maður frá séra Snorra) Brynjólfi frá Minnanúpi, og hafði hana eftir Guðnýju sjálfri. Snorri prestur andaðist árið 1803 á tíræðisaldri; börn hans voru uppkomin, vel mönnuð sem kallað var og urðu kynsæl. En Guðný „varð ekki við alþýðu skap".
Hún eignaðist eftir föður sinn bók þá, er hann hafði forðum tekið af gamla Jóni norður á Ströndum ... Bók þessi var stór og rituð með rauðu Finnaletri. Púki nokkur fylgdi bók þessari, og varð sá að eignast hvort tveggja, er bókarinnar naut.
Hér er ekki hægt um vik að greina frá ævi Guðnýjar framanaf ævi, en hún þótti jafnan forneskjuleg í háttum og einræn. Síðasta hluta ævinnar bjó hún ein í kofa þar sem heitir Ambáttarhóll, í Varmalækjarlandi í Flókadal.
Jón Borgfirðingur sá Guðnýju nokkrum sinnum. Hann segir svo frá „að hún hafi verið mikil vexti og stórskorin. Hún hafði skegg á grönum. Bitureyg var hún og hvítmataði í augu hennar, þegar hún gaut þeim út undan sér. "
Guðný var hjátrúarfull mjög, en fróð og skrafhreifin. Einu sinni sá Jón hana við Bæjarkirkju, „og var hún þá í svartri hempu. Hún hafði vafið hvítum strompi um höfuð sér, og var hann opinn upp úr, en utan um strompinn hafði hún vafið dökkum klúti" (Þjóðs. Ól. Dav.).
Sagt var að Hallkell nokkur frá Grjóteyri í Andakíl hafi verið í tygjum við Guðnýju, en rofið heit sín við hana. Hann varð síðan úti í Grjóteyrarskógi, og töldu menn að það væri af völdum Guðnýjar.
Nokkrar minningar eru varðveittar um heimilisháttu í Ambáttarhól. Guðný hýddi ætíð kofa sinn utan og innan með vendi á jóla- og nýársnóttum og þuldi jafnframt „forneskjuþulur", sagði fólk.
Guðný átti nokkrar kindur og tvo rauða hesta, og þarfnaðist því nokkurra heyja. Var því stundum kvenmaður hjá henni að sumrinu, en sú dvöl var aldrei langæ, því sagt var að Guðný væri iðin við að segja forynjusögur; urðu kvensur við það myrkfælnar og fóru.
Guðný var eitt sinn spurð í hreinskilni hvort faðir hennar, séra Snorri hefði verið göldróttur. Hún svaraði: „Ó nei, barnið mitt, hann var ekki göldróttur; allt sem hann gat, gerði hann með guðs fíngri".
Konan í Ambáttarhól var ekki með öllu laus við nærveru útburða og annarra vætta, þótt lángt væri liðið síðan útburðurinn úr Teitsgili var að hrella hana heimundir bæ á Húsafelli. Jón Borgfirðingur skráði eftir sögu hennar sjálfrar að útburður héldi til nálægt Ambáttarhól, og gólaði sá mikið undan útsynníngi og éljagángi, svo sjálf gæti hún ekki sofið fyrir honum þegar slík veður voru í nánd.
Það vill svo vel til að varðveittar eru pápiskar bænir af vörum Guðnýjar Snorradóttur. Þórður Árnason á Bjarnastöðum skráði þær eftir henni og eru þær í safni Jóns Árnasonar. Að stofninum til eru þær víst flestar miklu eldri en Guðný, svo sem þessi:
Sofðu nú sælin
og sofðu nú vel.
Sofðu eins og Kordíá
undir vængjum Máríá.
Krossinn helgi lýsi þér
með öllum sínum ljósum,
hvurs helgidóm vér hrósum.
Dilli þér nú Drússíus og Pálma,
sýngi yfir þér serimon og sálma.
En eftirfarandi bæn ber örugg merki þess að Guðný hafi fært hana í samræmi við nánasta umhverfi kofans síns á Ambáttarhóli:
Krossa ég mig og signi í bak, krossa mig og signi mig í fyrr með því heilaga sigurmerki sem St. Barbára merkti sig á sjálfa kyndilmessu drottins síns og Máríu sinnar. Sittu hjá mér Máría hin sæla, signdu mig með hægri hendi fyrir hönum illa Lússímund og hönum Loðin Ásbjarnarsyni og fyrir afturgöngunni við Þrándarholtsstekk og útburðinum í Andrésarmýri. Varveittu minn andardrátt sem Elítómasar og ins stóra Abístors og Córí. St. Þorlákur standi í mínum anddyrum og sýngi mér sjö sinnum Pater noster. Svo súngu Máría og Pétrónell á sinn upprisudag. Ámín. Ámín. Hvur þessa bæn les þrisvar á dag, hönum mun ganga allt í hag. Ámín. Ámín.
Guðný Snorradóttir andaðist á Sturlureykjum í Reykholtsdal 6. janúar 1852. Kirkjan að Húsafelli hafði verið seld til niðurrifs 1811, og þótti mörgum ógæfumerki, ekki sízt eftir að sá sem fyrstur lagði hönd að því, Snorri Björnsson, Snorrasonar prests, varð sturlaður og heingdi sig á Bessastöðum 1814.
Gleymskan greri þó að mestu yfir rústir kirkjunnar; en tvö systkinin voru minnug á helgi staðarins. Jakob Snorrason andaðist 1839 og var jarðaður að Húsafelli við hlið gamla Snorra, föður síns, samkvæmt eigin ósk. Guðný Snorradóttir hafði óskað hins sama. Þess vegna var forneskjukonan úr Ambáttarhól einnig borin til moldar í gamla kirkjugarðinn á Húsafelli.
(Helztu heimildir: Huld; Gráskinna II.; Þjóðsögur Jóns Árnasonar II.; Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar II.; Gísli Konráðsson: Þáttur af Halli á Horni o.s.frv. (Vestf. sagnir); Héraðssaga Borgarfjarðar I. o.fl.). "
Síðast breytt 24. október 2023