Þórvör Sveinsdóttir og Harold sonarsonur hennar. Ljósmynd: Thomas E. Halldorson. Þann 24. júlí lést á heimili sínu í Lincoln, Neb., Þórvör Sveinsdóttir, á 64. aldursári, kona Jóns Halldórssonar. Þórvör heitin var dóttir Sveins Jónssonar, sem seinast bjó á Garði í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu. Sveinn var ættaður úr Skagafirði, hálfbróðir Páls læknis Thorbergsens, sem drukknaði á Breiðafirði. Móðir Þórvarar sál. var Soffía Skúladóttir, prests að Múla Tómassonar, prests að Grenjaðarstað. Móðir Soffíu Skúladóttur var Þórvör Sigfúsdóttir, prests f[r]á Höfða í Höfðahverfi. Systkini hennar sem lifa eru Sigurjón og Mrs. Þuríður Sigurðsson í Saskatchewan í Canada.
Þórvör heitin var fædd 20. sept. 1849 á Syðrafjalli í Aðaldal (eða Múla), og ólst upp hjá foreldrum sínum, fyrst að Fjalli, en seinna að Garði í sömu sveit; var um tveggja ára tíma á Akureyri, hvaðan hún flutti árið 1873 til Ameríku. Hún settist að í Wisconsin, og lærði hún að tala og skrifa ensku. Þaðan flutti hún í október 1875 til Firth, Lancaster County, í Nebr., hvar hún giftist 19. des. sama ár Jóni Halldórssyni, sem enn lifir (á 75. aldursári). Í Lancaster County bjuggu þau hjón níu ár. Þar byggðu þau upp land sem þau keyptu. Árið 1884 fluttu þau 300 mílur lengra vestur og settust að í Rock County, Nebr. Þar tóku þau fyrir alvöru þátt í nýbyggjalífi þessa lands í 23 ár. Árið 1907 fluttu þau tilbaka til Lincoln, Lancaster County – svo þau gætu fullkomnað menntun barna sinna. Þau hjón eignuðust níu börn, af hverjum fjögur dóu á unga aldri, en fimm eru á lífi, öll uppkomin: Sveinn, verslunarmaður í Bassett, Neb., kvongaður, á fjögur börn; Tómas, myndasmiður í Omaha, Neb.; Páll, vinnur í Congress bókhlöðunni í Washington, D.C., og Ralph og Sofía eru hjá föður sínum.
Ég þarf ekki að lýsa Þórvöru heitinni fyrir þeim, sem höfðu nokkur kynni af henni, því hún var ódul í skapi; en kunningjum og vinum, sem ekki þekktu hana, hefi ég það að segja að hún var ein af þeim konum sem hafa lag á að gera fátækt heimili að ofurlitlum Eden-bletti hér á jörðu, hvort heldur var í frumbyggðum eða stórborgum, – þar sem eiginmaður og börn vildu helst eyða öllum sínum frístundum.
Jón Halldórsson.
Síðast breytt 22. júní 2018