Skip to main content

Pistlar

Handrit úr fórum Guðríðar Jónasdóttur frá Svarfhóli (1843–1919)

Fyrir mörgum árum var ég að gramsa í gömlum smákökukössum hjá föðursystur minni, Ragnheiði Kristjönu Baldursdóttur, og fann þar pappíra frá foreldrum hennar, Baldri Sveinssyni frá Húsavík og Marenu Pétursdóttur úr Engey. Þar á meðal var umslag sem á stóð „Guðríður Jónasdóttir frá Svarfhóli í Miklaholtshreppi móðir Jóh. G. Sigurðssonar“. Baldur og Jóhann Gunnar Sigurðsson voru skólabræður og vinir, og eftir að Jóhann dó úr berklum árið 1906, eins og margir aðrir vinir þeirra Baldurs á þessum árum, skrifaðist Baldur á við móður hans (sem þakkaði vinum hans fyrir stuðning við einkason sinn síðustu tvo veturna sem hann lifði með grein í Ingólfi 8. júlí 1906, og er það hið eina sem mér hefur tekist að finna á prenti eftir hana). Baldur skrifaði loks eftir pappírum Guðríðar þegar hún lést – en hann auglýsti útför hennar á forsíðu Vísis hinn 25. júlí 1919. Hann hefur örugglega einnig ritað dánartilkynninguna sem birtist í sama blaði hinn 17. júlí: „Í gærdag andaðist á Landakotsspítala ekkjan Guðríður Jónasdóttir frá Svarfhóli í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi. Hún var móðir Jóhanns sáluga Gunnars Sigurðssonar, skálds, sem hér dó vorið 1908. Guðríður var greind kona og skáldmælt.“

Í smákökukössunum voru bréfin frá Guðríði til Baldurs, hið fyrsta dagsett 6. ágúst 1907 þar sem hún þakkar Baldri fyrir allt gamalt og gott, talar um kvæði sonar síns og góða vini hans. Hinn 16. febrúar 1908 þakkar hún fyrir bréf frá Ameríku, frá vandalausum manni sem hún hefur aldrei séð, þ. e. Baldri, og vonast til að Baldur hafi fundið draumalandið þeirra Jóhanns um leið og hún hvetur hann til að láta prenta ljóðin hans.

 Ljósmynd af forsíðu handritsins með Ljóðmælum Guðríðar Jónasdóttur. Í kassanum var einnig ýmislegt eftir Guðríði sjálfa, þar á meðal hátíðaruppskrift kvæða hennar sem hún hefur fengið Lárus Halldórsson til að rita árið 1911. Af þeim má lesa sorgarsögu hennar (hún missti fimm börn sín í æsku og var Jóhann hið yngsta og eina sem komst á legg eins og fram kemur í formála Benedikts Bjarnarsonar (1879–1941) að Kvæðum og sögum en þeir Baldur og Benedikt voru bræðrasynir) þó að framarlega sé minnst gleðistunda með barninu Kristínu Sigurást:

Gleður tíðum muna minn
menja hlíðin rjóða
horfir blíð á babba sinn
barnið íðilgóða.

Nokkur árnaðarkvæði eru til Jóhanns Gunnars uns hún yrkir seinustu kveðju til hans:

Sólardaga sumars fagurlega
Guð, sem hag um sinna sér
sigur fagran veiti þér.

Þá biður hún Guð að geyma öll börnin sín dánu og yrkir minningu eftir elsku manninn sinn Sig. S [Sigurð Sigurðsson]:

Einmana stend ég hér eftir á foldu
einhent og grátandi vininum svift.
Þú ert nú tekinn og þakinn í moldu
því er ég einasta sorginni gift.
Yndi mér veitist af andsvari þínu
oft þú mér sagðir með hógværri lund
fyrir þá heitustu frelsarans pínu
mig finnurðu aftur á sælunnar grund.

Fleiri kvæði eru um sorgarraunir Guðríðar, áköll til Guðs um náð, styrk og skjól, en einnig léttlyndari kvæði um samferðafólk, vini og vinkonur. Þangað til við gefum út kvæðasafn Guðríðar verður þetta vers að vísa okkur rétta leið:

Lof sé Guði, sem geymt mig hefur
geng ég jafnan í skjóli hans
ávalt mig náðar örmum vefur
auma, þá leita frelsarans.

Birt þann 22. júní 2018
Síðast breytt 24. október 2023