Heimur í orðum á HITTUMST í Hafnarhúsinu
Árnastofnun mun kynna handritasýninguna Heimur í orðum fimmtudaginn 8. maí í Hafnarhúsinu á HITTUMST sem er vettvangur ferðaþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu til að kynna vörur sínar og þjónustu. Hátt í 70 aðilar með 120 vörumerki verða á HITTUMST og munu kynna gestum og gangandi starfsemi sína.
Öll fyrirtæki og einstaklingar í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu eru hvattir til að mæta. Einnig er hægt að skrá sig í lukkupott og eiga þannig möguleika á vinningi frá hinum og þessum ferðaþjónustufyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu.
„Skrifari og skáld var sá, skemmtun Vopnafjarðar.“ Jakob Sigurðsson og handritaskreytingar hans.
Eddu
Arngrímsgötu 5
Reykjavík 107
Ísland
Kjartan Atli Ísleifsson sagnfræðingur fjallar um listamanninn Jakob Sigurðsson í fyrirlestrasal Eddu laugardaginn 10. maí kl. 13.
Í fyrirlestrinum er fjallað um Jakob Sigurðsson (1727–1779) og þær handritaskreytingar sem liggja eftir hann. Jakob bjó lengst af á nokkrum bæjum í Vopnafirði ásamt eiginkonu og börnum, yfirleitt við fátæklegar aðstæður. Auk bústarfa fékkst Jakob nokkuð við uppskrift handrita og eru sum þeirra myndskreytt. Jakob var óvenju drátthagur miðað við aðra sem fengust við sömu iðju á 18. öld og eru handritaskreytingar hans einhverjar þær merkilegustu sem varðveist hafa frá tímabilinu. Í Edduhandritunum NKS 1867 4to og SÁM 66 er að finna athyglisverðar heilsíðumyndir af persónum og atburðum úr norrænni goðafræði eftir Jakob. Verða þessar myndir meðal annars teknar til umfjöllunar ásamt fleiri skreyttum handritum úr smiðju Jakobs.
Fyrirlesturinn er í tengslum við handritasýninguna Heimur í orðum.
Skálmöld og goðafræðin
Eddu
Arngrímsgötu 5
Reykjavík 107
Ísland
Vinafélag Árnastofnunar stendur fyrir viðburði fimmtudaginn 15. maí kl. 17 í Eddu.
Snæbjörn Ragnarsson, bassaleikari og textahöfundur Skálmaldar, mun ræða við gesti um notkun sveitarinnar á norrænni goðafræði. Hvers vegna passar þetta yrkisefni svona vel við þungarokkið? Hvað má og hvað má ekki? Má segja nýjar sögur? Má breyta gömlum? Búa til nýjar persónur? Hvað með tenginguna við nýnasisma og eitraða karlmennsku? Hvað er satt og hvað er logið?
Fyrirlesturinn verður með léttu yfirbragði og eru gestir hvattir til að spyrja spurninga.
Alþjóðlegi safnadagurinn 18. maí – Framtíð safna í síbreytilegum samfélögum
Árnastofnun tekur þátt í Alþjóðlega safnadeginum sem haldinn verður 18. maí nk. Af því tilefni verður handritasýningin Heimur í orðum opin almenningi að kostnaðarlausu.
Alþjóðlegi safnadagurinn 2025: Framtíð safna í síbreytilegum samfélögum
Í heimi sem tekur örum breytingum gegna söfn lykilhlutverki sem stofnanir sem efla þollyndi, nýsköpun og inngildingu. Þau eru lifandi vettvangur félagslegrar framþróunar og stuðla jafnframt að sjálfbærni á heimsvísu. Þá gegna söfn veigamiklu hlutverki í að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en í ár beinist athyglin sérstaklega að eftirfarandi markmiðum:
-
8. Góð atvinna og hagvöxtur: Söfn styðja við efnahagslífið með því að skapa atvinnu og bjóða upp á fræðslu í þágu samfélagsins.
-
9. Nýsköpun og uppbygging: Með því að ýta undir sköpunargleði og fagna tækniframförum stuðla söfn að nýsköpun og auknu aðgengi að þekkingu.
-
11. Sjálfbærar borgir og samfélög: Söfn hafa áhrif á sjálfbæra þróun samfélaga sem menningarlegar miðstöðvar sem halda á lofti inngildingu, elju og varðveislu menningararfs.
Yfirskrift ársins tengist einnig allsherjarþingi ICOM sem verður haldið í Dúbaí í nóvember 2025. Á þessari alþjóðlegu ráðstefnu verður áfram fjallað um hvernig söfn geta aðlagast, þróast og verið leiðandi samfélagsafl á umbrotatímum.
Hvernig á ég að snúa mér? Hárhamur og holdrosi í skinnhandritum
Eddu
Arngrímsgötu 5
Reykjavík 107
Ísland
English below
Í fyrirlestrinum mun Lea D. Pokorny, doktorsnemi í sagnfræði, fjalla um hárham og holdrosa og hvernig þessar hliðar á skinnum dreifðust í íslenskum handritum. Fyrirlesturinn er í tengslum við handritasýninguna Heimur í orðum.
Fyrirkomulag skinnblaða í kverum er mikilvægt skref í handritagerð. Tvær viðteknar hefðir eru aðgreindar af fræðimönnum sem eiga við um Evrópu á miðöldum. Annars vegar „insular“-hefðin, þ.e.a.s. hefðin frá Bretlandseyjum þar sem blöðunum er raðað þannig að hárhamur snýr að holdrosa í opnu kveri og hins vegar meginlandshefðin þar sem hárhamur snýr að hárham og holdrosi að holdrosa, einnig kölluð „regla Gregorys“. Íslensk bókaframleiðsla á miðöldum hefur hingað til verið sögð hafa fylgt síðarnefndu hefðinni, þó ekki alltaf nákvæmlega. Í þessu erindi verður farið yfir kverabyggingu í íslenskum handritum frá 14. öld til að sýna fram á hvaða starfsháttum íslenskir bókagerðarmenn fylgdu.
Fyrirlesturinn verður haldinn á ensku.
The arrangement of sheets of parchment into gatherings is an important step during manuscript production. In medieval Europe, two general traditions are differentiated by scholars: the insular practice, whereby the sheets are arranged so that hair-sides face flesh-sides in an opening, and the continental practice, whereby like faces like, also referred to as ‘Gregory’s rule’. Medieval Icelandic book production has hitherto been said to have followed, although not always faithfully, the latter practice. In this talk, the construction of gatherings in fourteenth-century Icelandic manuscripts will be examined in order to assert which practice Icelandic book makers followed.
Nordkurs-námskeið í Reykjavík
Árnastofnun
Eddu, Arngrímsgötu 5
Reykjavík 107
Ísland
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Hugvísindasvið Háskóla Íslands annast skipulagningu á árlegu fjögurra vikna námskeiði í íslensku fyrir um 26 norræna stúdenta sem fram fer í Reykjavík 3.–26. júní. Námskeiðið er allt að 10 ECTS og samanstendur af rúmlega 70 kennslustundum. Auk íslenskunámsins hlýða nemendurnir á fyrirlestra um íslenskt samfélag, sögu, bókmenntir og menningu og heimsækja sögustaði á Suður- og Vesturlandi.
Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Nordkurs.