Skip to main content

Pistlar

Um aldur orða í íslensku

Stundum veltir fólk fyrir sér hversu gömul einstök orð eru. Aldur orða má meta á ýmsan hátt eftir því hvað við er átt. Það sést fljótt þegar íslensk orð eru skoðuð að elstu orð málsins eru eldri en málið sjálft. Þar er um að ræða erfðaorð sem eiga rætur að rekja til frumgermönsku og lengra aftur til frumindóevrópsku sem er sameiginleg formóðir margra evrópskra (og indverskra) tungumála. Þetta eru fjölskylduorð eins og faðir og móðir eða orð úr náttúrunni eins og vatn og sól. Einnig tilheyra töluorð (einn, tveir o.s.frv.) kjarnaorðaforða indóevrópskra mála sem er varðveittur í fjölmörgum ólíkum dótturmálum frumindóevrópsku, eins og grísku, albönsku, persnesku og pastó.

Sól kastar gullnum bjarma á vatn.
Orð úr náttúrunni eins og vatn og sól eru dæmi um erfðaorð sem eru eldri en málið sjálft.
Rachel Cook / Unsplash


Erfðaorð hafa breyst mismikið

Flest þessi orð hafa þó breyst talsvert á löngum tíma og er því ef til vill ekki alveg rétt að tala um sama orðið þegar borin eru saman t.d. íslenska orðið móðir og endurgerð indóevrópsk mynd þess *mātēr (*meh2tér-). Það er ljóst að þetta orð eins og flest önnur gömul erfðaorð hefur tekið talsverðum breytingum í gegnum tíðina. Með aðferðum samanburðarmálfræði má þó glögglega sjá að orðið móðir er afkomandi þessarar sex þúsund ára gömlu orðmyndar eins og sést þegar litið er á orð í skyldum málum, t.d. ensku mother, þýsku Mutter og latínu mater sem eiga sér sama uppruna.

Í fáeinum orðum hafa hljóðbreytingar frá indóevrópskum tíma ekki verið mjög róttækar. Orðið mús sem einnig er dæmi um gamalt erfðaorð hefur framburð sem stendur nærri ævafornum indóevrópskum framburði, þ.e. m-hljóð þar sem eftir fer langt ú-hljóð og að lokum s-hljóð. Íhaldssemi þessa orðs sést vel þegar borin eru saman orð úr skyldum málum, s.s. latínu mūs, grísku mȳ̃s, fornslavnesku mysĭ og fornindversku mūṣ.
 

Sum orð er auðvelt að tímasetja

Önnur leið til að meta aldur orða er að skoða hvenær þau birtast í elstu heimildum á íslensku. Elstu íslensku handritin eru frá 12. öld og því eru þau fyrstu skjalfestu heimildirnar um mörg íslensk orð. Sum fornkvæði eru þó enn eldri en lausamálstextar og hafa verið tímasett allt til 9. aldar og fyrri hluta 10. aldar. Í miðaldakvæðum má stundum sjá fornlegar orðmyndir og orðaforða sem ekki hefur varðveist í óbundnu máli, t.d. ϙlvi sem er eldri mynd af þágufalli orðsins öl (sbr. ofurölvi).

Ólíkt gömlum erfðaorðum frá fyrri málstigum er auðveldara að tímasetja ýmis tökuorð og nýmyndanir sem koma oft inn í tungumálið samfara þjóðfélagsbreytingum eða tækninýjungum. Mörg tökuorð eru afar gömul eins og þau sem tengjast kristinni trú, t.d. kross, biskup og biblía og hafa í margar aldir verið hluti af málinu. Önnur tökuorð eins og bíll eða jeppi eru tiltölulega nýleg og mögulegt að meta aldur þeirra nokkuð nákvæmlega. Sama má segja um nýyrði en fjöldi þeirra jókst mjög á 19. öld og er oft hægt að rekja þau til ákveðinna verka og höfunda. Sem dæmi má nefna orðin sporbaugur og hryggdýr sem fyrst sjást í ritum Jónasar Hallgrímssonar og eru væntanlega smíðuð af honum. Mörg önnur nýyrði eins og tölva og þota sem urðu til á 20. öld geta verið tímasett með nokkurri vissu og eru stundum rakin til ákveðinna orðasmiða. Á allra síðustu árum hafa orðið til fjölmörg ný orð tengd farsóttum og eldsumbrotum, t.d. hjarðónæmi og hraunkæling.

Íslensk orð eru því misgömul og endurspegla langa sögu tungumálsins, allt frá frumindóevrópskum tíma fram á okkar daga.

Birt þann 12. maí 2025
Síðast breytt 12. maí 2025
Heimildir

Anna Sigríður Þráinsdóttir og Elín Elísabet Einarsdóttir (2022): Á sporbaug – nýyrði Jónasar Hallgrímssonar.  Reykjavík:  Sögur útgáfa.

Ásgeir Blöndal Magnússon (1989): Íslensk orðsifjabók. Reykjavík: Orðabók Háskólans.

Bjorvand, Harald og Fredrik Otto Lindemann (2019): Våre arveord. Etymologisk ordbok. Oslo: Novus.

Finnur Jónsson (1931): Lexicon poeticum antiquæ linguæ Septentrionalis / Ordbog over det norsk-islandske skjaldesprog. Fyrst útgefin af Sveinbirni Egilssyni. 2. udg. København: Kongelige nordiske oldskriftselskab.

Íslensk nútímamálsorðabók. Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstj.). Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum https://islenskordabok.is.

Ordbog over det norrøne prosasprog / A Dictionary of Old Norse Prose. [Veforðabók yfir miðaldamálið á Íslandi og í Noregi.] <onp.ku.dk>.