Skip to main content

Fréttir

Ný handrit komin á sýninguna Heimur í orðum

Konungsbók Snorra-Eddu (GKS 2367 4to) og AM 227 fol

Skipt var um handrit á sýningunni Heimur í orðum í byrjun vikunnar. Þar má nú meðal annars sjá tvær tilkomumiklar skinnbækur frá 14. öld. Önnur þeirra er glæsilegt handrit frá Þingeyrum (AM 227 fol.). Það geymir íslenska þýðingu á sögum úr Gamla testamentinu sem stundum er nefnd Stjórn. Bókin er ríkulega myndlýst og eru sum litarefnin sem notuð voru við gerð myndanna fágæt og áreiðanlega langt að komin. Sumum þessara mynda er brugðið upp í hreyfimynd á vegg sýningarinnar en nú gefst gestum einnig tækifæri til að sjá handritið sjálft með eigin augum.

Hitt handritið er svokölluð Thomasskinna (GKS 1008 fol.) sem sést nú í fyrsta sinn á Íslandi síðan hún fór úr landi árið 1662. Í henni eru sögur tveggja dýrlinga sem báðir voru umdeildir menn í lifanda lífi. Ólafur helgi Haraldsson Noregskonungur gekk hart fram í að kristna Noreg og féll í Stiklastaðaorrustu 1030. Thomas Becket, erkibiskup í Kantaraborg, varði rétt kirkjunnar gegn konungsvaldinu en var drepinn fyrir altarinu í dómkirkju sinni af mönnum Hinriks konungs 2. árið 1170. Handritið var líklega í eigu klausturs fram að siðbreytingu en á 17. öld var það komið að Hólum í Hjaltadal þar sem Þormóður Torfason konunglegur sagnaritari fékk það og flutti úr landi. Konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn lánar handritið á sýninguna.

 

Alls eru 22 ólík handrit á sýningunni, allt frá lögbókum og messubókabrotum til sagnahandrita og rímna. Heimur í orðum er opin alla daga nema mánudaga kl. 10–17.