Skýrsla menningarsviðs 2024
Menningarsvið sinnir fjölbreyttum verkefnum sem tengjast íslenskri menningu sem í stuttu máli skiptist í þrennt: rannsóknir, miðlun og varðveislu frumgagna en sviðið varðveitir þrjú söfn, þ.e. handritasafn, segulbandasafn og örnefnasafn. Á sviðinu voru 23 starfsmenn þegar mest var, þar af níu akademískir starfsmenn með rannsóknarskyldu.
Verkefni menningarsviðs eru margvísleg. Rannsóknir akademískra starfsmanna og verkefnaráðinna sérfræðinga spanna vítt svið og má þar nefna bókmenntir og sögu, handrit, nöfn og þjóðfræðilegt efni. Rannsóknum er miðlað í fræðibókum og fræðilegum tímaritum, svo sem Griplu sem stofnunin gefur út en einnig með pistlaskrifum á vefsíðum og víðar og fyrirlestrum. Í desember kom út 35. hefti Griplu sem hefur komið út árlega síðan árið 2000 en fyrsta heftið kom út árið 1975. Einnig komu út á árinu rit sem starfsmenn sviðsins hafa unnið að: Tíðfordríf eftir Jón lærða Guðmundsson, Söngbók séra Ólafs Jónssonar á Söndum og Kurteisleg kvæði og dýrlegar diktanir sem er safn greina eftir Þórunni Sigurðardóttur. Rúnir á Íslandi eftir Þórgunni Snædal kom einnig út í 2. og endurbættri útgáfu. Enn fremur kom Konungsbók eddukvæða út rafrænt í ritröðinni Editiones Arnamagnæanæ Electronicæ og rafbókin Rímnakveðskapur tíu kvæðamanna: Rannsókn á tilbrigðum (2022) var gefin út á ensku The Rímur Poetry of Ten Kvæðamenn: Research on Variations.
Haldið var áfram að ljósmynda og skrá handrit á handrit.is. Árið 2023 fékkst styrkur úr Innviðasjóði til tólf mánaða vinnu við skráningu og var Margrét Jóna Gísladóttir ráðin í það verkefni. Lokið var við að skrá handrit með safnmarkinu NKS, Additamenta og Accessoria sem eru í vörslu stofnunarinnar og ljósmyndun þeirra er langt komin. Í upphafi árs hófst skráning og ljósmyndun fornbréfa úr fórum Árna Magnússonar en undirbúningur þess verks hófst árið áður þegar stofnunin fékk í samvinnu við Þjóðskjalasafn Íslands, Den Arnamagnæanske håndskriftsamling við Kaupmannahafnarháskóla og Riksarkivet í Ósló mjög veglegan styrk úr sjóði A. P. Møllers í Kaupmannahöfn. Jafnframt var haldið áfram að skrá handrit og annað efni á vefinn vesturheimur.arnastofnun.is. Í ágúst var haldinn alþjóðlegur sumarskóli í handritafræðum en Beeke Stegmann rannsóknarlektor bar hitann og þungann af skipulagningu hans.
Unnið var að því að flytja örnefnagreinar og -skýringar Þórhalls Vilmundarsonar, fyrrverandi forstöðumanns Örnefnastofnunar Þjóðminjasafnsins, yfir á stafrænt form og einnig var unnið að útgáfu á riti í tilefni af því að hann hefði orðið 100 ára á árinu hefði hann lifað og fleiri bækur eru í vinnslu. Starfsfólk í nafnfræði hefur einnig sinnt skrifstofustörfum fyrir Örnefnanefnd skv. reglugerð og verið með umfangsmikla örnefnaráðgjöf til sveitarstjórna og annarra. Haldið var áfram að færa segulbandsspólur yfir á stafrænt form og skrá þjóðfræðiefni á ismus.is. Bragi – óðfræðivefur var tengdur við Ísmús.
Þórunn Sigurðardóttir rannsóknarprófessor hætti störfum á árinu vegna aldurs. Karl Óskar Ólafsson var ráðinn í nýtt starf safnvarðar en hlutverk hans er fyrst og fremst að hafa umsjón með söfnum stofnunarinnar og aðstoða starfsmenn og gesti við að vinna með safnkostinn. Auglýst var starf rannsóknarlektors í miðaldabókmenntum og gengið frá ráðningunni á árinu.
Í nóvember voru nokkur handrit flutt úr Árnagarði yfir í Eddu og sett á nýja handritasýningu sem opnuð var á degi íslenskrar tungu. Við það tækifæri voru fengin að láni fjögur handrit frá Kaupmannahöfn til að hafa á sýningunni. Í desember var segulbandasafn stofnunarinnar flutt úr Árnagarði yfir í Eddu.