Skip to main content

Fréttir

Hvar er? er landsátak í tilefni af degi íslenskrar náttúru

Landmælingar Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hrinda af stað landsátaki um afmörkun og skráningu örnefna undir heitinu Hvar er? í tilefni af degi íslenskrar náttúru.

Landsátakið mun hefjast í félagsheimilinu Lyngbrekku í Borgarbyggð 15. september nk. kl. 17.30 þar sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mun skrá örnefni í sinni heimabyggð, Brúarlandi.

Markmið átaksins er að staðsetja sem flest örnefni úr örnefnaskrám sem nýlega voru gerðar aðgengilegar á vefnum nafnið.is og fjölga skráningaraðilum örnefna í landinu.

Sigurðar Nordals fyrirlestur

Á fæðingardegi dr. Sigurðar Nordals 14. september gengst stofnunin fyrir svokölluðum Sigurðar Nordals fyrirlestri. Að þessu sinni mun Dagný Kristjánsdóttir prófessor emeritus flytja fyrirlestur í tilefni dagsins.

Nýr starfsmaður hjá Árnastofnun

Sólmundur Már Jónsson hóf störf í vikunni sem verkefnisstjóri flutninga og breytinga Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Flutt verður í Hús íslenskunnar árið 2023 en að mörgu er að hyggja við flutning starfsfólks, handrita, bókasafns, gagna og búnaðar. Með nýju húsnæði mun öll aðstaða til rannsókna, sýningarhalds og miðlunar batna stórkostlega. Jafnframt mun starfsemi stofnunarinnar sameinast á einn stað sem býður upp á mikil tækifæri en hún hefur verið í Árnagarði, á Laugavegi og Þingholtsstræti.

Gjöf frá Minnesota

Ann McKinley frá Minnesota heimsótti Árnastofnun í dag og færði stofnuninni að gjöf rímnahandrit fyrir hönd Greg Gudbjartsson bróður síns. Skrifari handritsins var afi þeirra Dagbjartur Guðbjartsson (1889–1970) sem bjó í Akra í Norður-Dakóta. Dagbjartur fór til Vesturheims árið 1911 frá Breiðuvík í Rauðasandshreppi og dvaldi fyrst í Winnipeg þar sem móðurbróðir hans, Nikulás Össurarson, bjó.

Styrkir veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur

Starfsmenn og verkefni á vegum Árnastofnunar hlutu nýverið styrki úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur.

Branislav Bédi, verkefnisstjóri á Árnastofnun, hlaut framhaldsstyrk til að vinna við gerð íslensk-þýskrar veforðabókar. Orðabókin er unnin í samstarfi við Háskólann í Vínarborg og verður öllum aðgengileg á vefnum án endurgjalds.

Vigdís Finnbogadóttir opnar nýja íslensk-franska veforðabók

Lexía, ný íslensk-frönsk veforðabók, var opnuð með viðhöfn 16. júní í Veröld – húsi Vigdísar af Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Margir tóku til máls við opnunina og meðal þeirra sem fluttu ávarp voru Roselyne Bachelot-Narquin, menningar- og samskiptamálaráðherra Frakklands, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.