Skip to main content

Fréttir

Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista hlaut styrk frá Rannís

Í janúar úthlutaði Rannís styrkjum úr innviðasjóði. Meðal styrkþega er Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er aðili að ásamt fleiri stofnunum. Miðstöðin var stofnuð á síðasta ári og hlutverk hennar er að efla stafræn hugvísindi hér á landi og stuðla að uppbyggingu innviða sem tengt geta saman ólík fræðasvið.

Eitt af verkefnunum sem miðstöðin hlaut styrk fyrir snýst um tilgreiningu á hljóðupptökum þjóðfræðisafns sem aðgengilegt er í gegnum vefinn Ísmús. Í verkefninu sem unnið er í samstarfi við Tíró ehf. verður talgreinir þjálfaður með það fyrir augum að fá á sjálfvirkan hátt uppskriftir úr viðtölum sem finna má í hljóðskrám safnsins. Þær uppskriftir munu ekki aðeins stórauka leitarmöguleika safnsins heldur gagnast við málfræðirannsóknir. Safnið er sérstaklega áhugavert þar sem talsverður hluti heimildafólks þar var fæddur á nítjándu öld.

Af öðrum verkefnum Miðstöðvarinnar má nefna kaup og þjálfun á hugbúnaðinum Transkribus sem getur lesið skönnuð handskrifuð skjöl og breytt í texta. Þegar hugbúnaðurinn hefur verið þjálfaður opnast möguleikar á að gera ýmis gögn frá liðnum öldum leitarbær og aðgengileg og flýta fyrir vinnu við útgáfur og rannsóknir.

Þá hefur fengist framhaldsstyrkur til þróunar á sögulegu manna- og jarðatali. Það verkefni snýst um að þróa miðlægan gagnagrunn yfir einstaklinga og bæi sem finna má í sögulegum gagnagrunnum. Mun hinn nýi grunnur geta aukið samræmi á milli ólíkra grunna sem þó innihalda upplýsingar um sömu einstaklinga eða staði hjá mismunandi stofnunum.