Bókmennta- og heilsuátakið Laxness120
8. febrúar−23. apríl 2022
Íslenskukennarar við fimmtán erlenda háskóla tóku aftur saman höndum í ár og höfðu frumkvæði að bókmennta- og heilsuátakinu Laxness120. Hugmyndin að verkefninu kviknaði í Vín í lok haustmisseris 2020 í einum fjarkennslutímanum á skjánum þegar allir voru orðnir leiðir á eilífðar útgöngubanni og streymiþjónustuglápi. Á vormisseri 2021 varð þessi hugmynd að veruleika. Átakið í fyrra hét Laxness119 vegna þess að 119 ár voru liðin frá fæðingu Halldórs Kiljans Laxness. Í ár heitir átakið Laxness120 því að 120 ár eru liðin frá fæðingu skáldsins.
Milli dánardags (8. febrúar) og fæðingardags (23. apríl) skáldsins Halldórs Laxness á hver og einn þátttakandi að velja sér það form hreyfingar sem honum finnst hentugast. Hugmyndin er sú að talan 120 komi fram í persónulegu markmiði hvers og eins. Má þar t.d. nefna að hlaupa, hjóla eða ganga 120 km en einnig er hægt að synda 120 m og skauta eða gera 120 æfingar af einhverju tagi (á viku eða degi hverjum). Á sama tíma á að lesa skáldsögu að eigin vali eftir nóbelsskáldið eða hlusta á upplestur tiltekinnar sögu. Þetta bókmennta- og heilsuátak er frábært dæmi um aukið samstarf milli kennara og nemenda í íslensku við háskóla um allan heim á tímum faraldurs.
Á fæðingardegi Halldórs Laxness 23. apríl nk. lýkur átakinu með glæsibrag líkt og í fyrra (dagskrá verður auglýst síðar). Í beinni rafrænni útsendingu frá Gljúfrasteini − Húsi skáldsins fá þátttakendur að virða húsakynnin fyrir sér. Síðan mun einn gestafyrirlesari fjalla um helstu atriði í lífi og starfi skáldsins.
Markmiðið með þessu átaki er að vekja athygli á verkum Halldórs og hvetja alla, og ekki síst fólk af erlendum uppruna sem er að læra íslensku, til þess að kynna sér skáldsögurnar sem liggja fyrir í allmörgum þýðingum.
Allir geta skráð sig til leiks á síðum átaksins á Facebook og Instagram og deilt myndum merktum #Laxness120. Skemmtilegt verður að sjá á hverju þátttakendur ætla að spreyta sig í átakinu. Hægt er að sippa, klifra, ganga, synda, skokka, hjóla eða dansa svo að nokkur dæmi séu nefnd.
Átakið er unnið í samstarfi við Gljúfrastein og Bókmenntaborgina Reykjavík.